Innherji

Hótun verkalýðsleiðtoga yfirlýsing um að þeir ætli að semja um verðbólgu

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist hreikna með því að það muni draga úr spennu á fasteignamarkaði á næsta ári og að það muni hægja töluvert á verðhækkunum.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist hreikna með því að það muni draga úr spennu á fasteignamarkaði á næsta ári og að það muni hægja töluvert á verðhækkunum. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Seðlabankastjóri telur að það hafi verið „mistök“ af hálfu aðila vinnumarkaðarins að ná ekki saman í haust um að falla frá hinum svonefnda hagvaxtarauka á næsta ári, sem tryggir launafólki hlutdeild í ávinningnum þegar landsframleiðsla á hvern íbúa eykst, en hann mun að óbreyttu virkjast og leiða til enn meiri launahækkana en áður var spáð.

„Þetta mun setja meiri þrýsting á peningastefnuna en ella,“ sagði Ásgeir Jónsson í viðtali við Innherja eftir vaxtaákvörðunarfund Seðlabankans í morgun en peningastefnunefndin ákvað að hækka vexti bankans úr 1,5 prósent í 2 prósent vegna versnandi verðbólguhorfa sem endurspeglar einkum þrálátari alþjóðlegar verðhækkanir, meiri hækkun launakostnaðar og aukinnar spennu í þjóðarbúinu.

„Það verður að liggja skýrt fyrir,“ útskýrir seðlabankastjóri, „að þegar aðilar vinnumarkaðarins setjast niður á næsta ári að semja um nýja kjarasamninga að þeim sé alvara um að vilja viðhalda verðstöðugleika. Þeir eru sumpart ábyrgir fyrir því vaxtastigi sem við erum með hverju sinni.“

Geti kallað „hörmungar“ yfir þjóðina

Tólf mánaða verðbólga mælist nú 4,5 prósent en bankinn spáir því að hún muni hækka í 4,7 prósent undir lok þessa árs – mesta verðbólga í næstum áratug – og hún fari ekki undir 3 prósent fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2022.

Á vaxtaákvörðunarfundi bankans í morgun var seðlabankstjóri spurður út í ummæli sem sumir forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa látið falla vegna vaxtahækkana Seðlabankans að undanförnu. Á meðal þeirra eru Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, en þeir sögðu undir lok síðasta mánaðar að „hver einasta króna“ sem lögð yrði á heimilin, í formi hærra vaxta, yrði sótt til baka í næstu kjarasamningum.

Ásgeir brást hart við þeim yfirlýsingum á fundinum og sagði þær geta kallað „hörmungar“ yfir þjóðina.

Spurður frekar út í þau ummæli segir seðlabankastjóri að það sé hlutverk bankans að tryggja að þær launahækkanir sem um er samið fyrir almenning haldi verðgildi sínu. 

Ummæli verkalýðsleiðtoganna eru hins vegar í raun yfirlýsing um að þeir ætli í komandi kjarasamningum að semja um verðbólgu. 

„Það getur ekki verið í þágu hagsmuna félagsmanna þeirra,“ segir Ásgeir í viðtali við Innherja.

Hagvaxtaraukinn sem um var samið í Lífskjarasamningunum vorið 2019 var nýlunda í íslenskri kjarasamningagerð. Þrátt fyrir að landsframleiðsla í lok ársins verði minni en hún var í lok árs 2019 verða laun hækkuð í maí á næsta ári, líklega um 13 þúsund krónur, vegna ákvæðis um hagvaxtarauka. Og hagvaxtaraukinn leggst ofan á 24 þúsunda króna hækkun næstu áramót.

Seðlabankastjóri segir það vera „óheppilegt“ að hagvaxtaraukinn muni virkjast á næsta ári að óbreyttu en það sé eitthvað sem Seðlabankinn geti ekki haft stjórn á. „En við ráðum hins vegar miklu um vaxtastigið og spurningin er hvað við þurfum að gera mikið til að tryggja verðstöðugleika.“

Erum við að fara sjá framhald á miklum og hröðum vaxtahækkunum á komandi misserum?

„Ekkert endilega,“ segir Ásgeir, en næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans er í febrúar. „Við ættum þá að hafa betri yfirsýn yfir stöðu mála en það gæti verið óþægilegt fyrir okkur ef við sjáum verðbólguna halda áfram að hækka á næstu þremur mánuðum á sama tíma og þessar launahækkanir eru að koma inn,“ útskýrir Seðlabankastjóri.

Muni færast frá því að vera gerandi yfir í að vera þolandi

Samkvæmt verðbólguspá bankans verður 2,5 prósenta verðbólgumarkmiðinu ekki náð á spátímabilinu sem nær til ársloka 2024. Eruð þið að játa ykkur sigraða í slagnum við verðbólguna í bili?

Ásgeir vill ekki meina það og bendir á að „eitthvað af þessari verðbólgu sem er að mælast ráðum við klárlega ekki við, eins og með þær miklu verðhækkunum sem við sjáum á erlendum hrávörumörkuðum“. Það sama eigi sömuleiðis sumpart við fasteignamarkaðinn en á síðustu tólf mánuðum mælist verðhækkun fasteigna á höfuðborgarsvæðinu yfir 16 prósent.

Seðlabankastjóri segist hins vegar reikna með því að það muni draga úr spennu á fasteignamarkaði á næsta ári og hægja töluvert á verðhækkunum. Hækkandi húsnæðisverð verði því ekki lengur helsti orsakavaldur hækkandi verðbólgu, eins og hefur verið síðustu misseri, heldur muni verðbólguþróunin fremur ráðast af ytri þáttum og þeim launahækkunum sem eru í pípunum á vinnumarkaði.

„Ég held að fasteignamarkaðurinn geti mögulega færst frá því að vera gerandi í þessum efnum yfir í að vera þolandi. Það er alveg ljóst að ef við þurfum að halda áfram að hækka vexti þá mun það hafa áhrif á eftirspurnina á þessum markaði,“ segir Ásgeir.

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri og Ásgeir Jónsson.Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Á aðeins örfáum mánuðum hefur bankinn hækkaði vexti úr 0,75 prósent í 2 prósent auk þess að hafa gripið til aðgerða á vettvangi fjármálastöðugleika- og fjármálaeftirlitsnefndar – hlutfall hámarks veðsetningar fasteignalána var lækkað í 80 prósent og eins settar reglur um 35 prósenta hámark á greiðslubyrði – í því skyni að reyna kæla fasteignamarkaðinn.

Spurður hvort hann telji að grípi þurfti til frekari aðgerða af þeim toga segist Ásgeir halda ekki og bendir á að hækkun vaxta hafi um leið þau áhrif að þrengja verulega hvað fólk getur skuldsett sig fyrir húsnæðiskaupum innan þess ramma sem hámarkið um greiðslubyrði setur.

Ekki ráðlegt að beita sér fyrir styrkingu krónunnar

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir óbreyttu gengi út spátímann. Kemur til greina að bankinn reyni að styðja við gengi krónunnar í því skyni að vega upp á móti hækkun verðbólgu og verðbólguvæntinga?

„Nei, við teljum það ekki vera ráðlegt,“ segir Ásgeir. 

Bankinn vill ekki vera gerandi á gjaldeyrismarkaði heldur frekar bregðast við óhóflegum skammtímasveiflum. 

„Við höfum séð gott jafnvægi á gjaldeyrismarkaði að undanförnu og að einhverju marki má útskýra það vegna hreyfinga lífeyrissjóðanna sem virka eins og sjálfvirkur sveiflujafnari fyrir gengið – og það er bara af hinu góða að mínu viti.“

Litið lengra fram í tímann telur seðlabankastjóri hins vegar „ekki ólíklegt“ að gengi krónunnar muni styrkjast, einkum þegar ferðaþjónustan kemur að fullum krafti til baka. „En á móti kemur,“ útskýrir Ásgeir, „munu þær launahækkanir sem eru fyrirséðar búa til mikla eftirspurn í kerfinu og við sjáum nú þegar að innflutningur er að aukast mjög hratt um þessar mundir. Það setur þrýsting á gengið.

Samkvæmt spá bankans er gert ráð fyrir viðskiptajöfnuður verði neikvæður á þessu ári sem nemur 0,9 prósentum af landsframleiðslu. Á næsta ári verði hann hins vegar jákvæður upp á 1,9 prósent og heldur áfram að minnka í 1,1 prósent 2023 og 0,1 prósent 2024.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Versnandi verð­bólgu­horfur

Verðbólguhorfur hafa versnað frá spá Seðlabanka Íslands í ágúst sem reiknar með að hún verði komin upp í 4,7 prósent undir lok þessa árs. Viðvarandi hækkun húsnæðisverðs og launa og verðs á hrávörum í útlöndum eru meginforsendurnar fyrir því að Seðlabankinn hækkaði meginvexti sína í morgun um 0,5 prósentustig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.