Viðskipti innlent

Fátt bendi til að markaðurinn sé farinn að kólna

Eiður Þór Árnason skrifar
Spenna er áfram á fasteignamarkaði.
Spenna er áfram á fasteignamarkaði. Vísir/Vilhelm

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% milli september og október sem er meiri hækkun en sást mánuðinn á undan. Íbúðaverð hækkaði um 1,2% milli ágúst og september en síðastliðna þrjá mánuði hefur verð hækkað um 4,3%.

Þetta sýnir ný mæling Þjóðskrár sem mælir vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur nú hækkað um 8,2% síðasta hálfa árið og 17,1% síðastliðna tólf mánuði.

Fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans að raunverð sé farið að hækka talsvert hraðar en kaupmáttur launa og hækkanir því ósjálfbærar til lengri tíma. Vegin árshækkun mælist nú 17,1% og hækkar um 0,5 prósentustig frá fyrri mánuði. Hagfræðideild Landsbankans telur að ró muni færast yfir íbúðamarkaðinn á næstu misserum. 

Þróun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Birting vísitölunnar er ætlað að varpa ljósi á þróun fasteignaverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma.

Fjölbýli hækkaði um 1,6% milli mánaða í október og sérbýli um 0,5%. Árshækkun sérbýlis mælist nú 21% og fjölbýlis 15,8%. Hækkunin milli mánaða á sérbýli er óvenjulítil en frá því í mars hefur sérbýli að jafnaði hækkað um rúm 2% milli mánaða. Hækkunin á fjölbýli er hins vegar sú mesta milli mánaða síðan í apríl á þessu ári og eykst um 0,4 prósentustig frá fyrri mánuði.

Aðgerðir Seðlabanka haft takmörkuð áhrif

Að sögn hagfræðideildar Landsbankans hefur kaupmáttarþróun launa ekki haldið í við raunverðsþróun íbúða sem sé vísbending um að kaupendahópurinn sem hafi efni á dýrari íbúðum fari minnkandi. Lægri íbúðalánavextir vegi þó á móti og hafa gert það að verkum að greiðslubyrði húsnæðislána hafi lækkað. Sú staða eigi þó eftir að breytast eftir því sem vextir Seðlabankans hækka.

„Það virðist fátt benda til þess að íbúðamarkaðurinn sé farinn að kólna á þessari stundu en Seðlabankinn hefur gripið til fjölmargra aðgerða, síðast í morgun með 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta. Enn sem komið er virðast aðgerðirnar ekki hafa haft veruleg áhrif á verðþróunina,“ segir í hagsjá Landsbankans. 


Tengdar fréttir

Íbúðaverð heldur áfram að hækka

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði að meðaltali um 1,2% milli ágúst og september. Fjölbýli hækkaði um 1,2% og sérbýli um 1,3%. Vegin árshækkun mælist nú 16,4% og hækkar um 0,2 prósentustig frá fyrri mánuði. Íbúðasala var minni en á fyrri mánuðum árs.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×