Handbolti

„Hún á bara að kaupa sér lottómiða núna eftir þetta mark“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marija Jovanovic sést hér vera að skora markið sitt úr aukakastinu á Ásvöllum.
Marija Jovanovic sést hér vera að skora markið sitt úr aukakastinu á Ásvöllum. Skjámynd/S2 Sport

Marija Jovanovic skoraði sjö mörk í sjö marka sigri ÍBV á Haukum á Ásvöllum í síðustu umferð Olís deildar kvenna í handbolta en það einkum eitt marka hennar sem fékk sérstaka umfjöllun í Seinni bylgjunni í gær.

„Marija skoraði sjö mörk í leiknum en eitt af þeim var ekki bara mark leiksins, ekki bara mark umferðarinnar, mögulega mark ársins og eflaust mark Evrópu. Ég held að enginn hafi skorað svona mark áður,“ sagði Svava Kristín Grétarsdóttir, umsjónarkona Seinni bylgjunnar.

ÍBV átti aukakast í lok fyrri hálfleiks og Marija Jovanovic skoraði úr því með því að vippa yfir markvörð Hauka sem var komin aðeins of framarlega.

„Hann fer inn og sjáið þið líka Sigga Braga. Stelpur, ha,“ sagði Svava Kristín og skipti svo yfir í viðtal við Sigurð Bragason, þjálfara ÍBV.

„Við tókum þetta fyrir á æfingu í fyrradag þar sem ég fór yfir með henni að reyna að vippa í fjær. Sýndi henni nokkur skot frá mér það sem ég hef gert þetta. Hún hitti mjög vel á það þannig að ég verð að taka þetta mark á mig,“ sagði grafalvarlegur Sigurður Bragason eftir leik en lítið glott í lokin sýndi að þjálfarinn var þarna að grínast.

Sigurlaug Rúnarsdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir ræddu þetta mark á eftir.

„Þetta heitir bara heppni og púra heppni. Hún á bara að kaupa sér lottómiða núna. Þetta er bara grís af fyrstu gerð,“ sagði Sigurlaug en það má sjá bæði markið og umræðuna hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Lottómark Mariju Jovanovic



Fleiri fréttir

Sjá meira


×