Handbolti

Rambo stóð ekki undir nafni og féll með til­þrifum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rambo er vægast sagt ólíkur karaktarnum sem Sylvester Stallone lék í samnefndum kvikmyndum.
Rambo er vægast sagt ólíkur karaktarnum sem Sylvester Stallone lék í samnefndum kvikmyndum. Handball World

Christoffer Rambo, fyrrverandi norskur landsliðsmaður, varð sjálfum sér og Rambo-nafninu til skammar er hann lét sig falla með tilþrifum í leik Runar og Nærbo í norsku úrvalsdeildinni nýverið.

Rambo og félagar í Runar voru í heimsókn hjá Nærbo en bæði lið eru meðal fjölda liða sem virðist ætla að berjast um annað sæti deildarinnar. Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Elverum virðast ætla að sigla deildarmeistaratitlinum örugglega heim en liðið er með fullt hús stiga að loknum níu umferðum.

En aftur að hinum 31 árs gamla Rambo og heimsókn Runar til Nærbo. Þegar rétt rúmar 10 mínútur voru liðnar af leiknum reyndi Rambo að fiska ruðning á leikmann Nærbo með vægast sagt leikrænum tilþrifum.

Það virkaði en dómari leiksins dæmdi ruðning en lýsandi leiksins var vægast sagt ósáttur með Rambo og lét hann heyra það. Stakk hann upp á að hann fengi verðlaun fyrir „leik í aukahlutverki.“

Segja má að réttlætinu hafi verið fullnægt þegar Nærbo vann leikinn með þriggja marka mun, 33-30. Runar er þó enn í 2. sæti deildarinnar með 14 stig en Nærbo er í 5. sæti með 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×