Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Brno 61-80 | Skaðinn skeður í hálfleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tinna Guðrún Alexandersdóttir lék vel fyrir Hauka gegn Brno.
Tinna Guðrún Alexandersdóttir lék vel fyrir Hauka gegn Brno. vísir/vilhelm

Haukar töpuðu fyrir Brno frá Tékklandi, 61-80, í þriðja leik sínum í L-riðli Evrópubikars kvenna í körfubolta í kvöld. Haukar hafa tapað öllum leikjum sínum í riðlinum.

Vitað var að róðurinn yrði þungur fyrir Hauka án Helenu Sverrisdóttur sem er meidd og sú varð raunin framan af. Haukar áttu í vandræðum í fyrri hálfleik og voru 26 stigum undir að honum loknum, 19-45. En frammistaðan í seinni hálfleik var allt önnur og miklu betri. Haukar unnu hann, 42-35, og á endanum munaði nítján stigum á liðunum, 61-80

Haiden Palmer var atkvæðamest í liði Hauka með tólf stig, níu fráköst og sex stoðsendingar. Hin átján ára Tinna Guðrún Alexandersdóttir átti flottan leik og skoraði níu stig og Briana Gray var með tíu stig í sínum fyrsta leik fyrir Hauka.

Brno byrjaði leikinn miklu betur, komst í 0-10 og það tók Hauka tæpar fjórar mínútur að skora sín fyrstu stig.

Leikmenn Brno hittu frábærlega fyrir utan og leiddu með sautján stigum, 8-25, eftir 1. leikhluta. Palmer og Rósa Björk Pétursdóttir voru einu leikmenn Hauka sem komust á blað í 1. leikhluta.

Haukar byrjuðu 2. leikhlutann vel, sérstaklega í vörninni, og Sólrún Inga Gísladóttir minnkaði muninn í tólf stig, 15-27, með einu þriggja stiga körfu Hauka í fyrri hálfleik.

Þá kom hressilegt bakslag hjá Haukum sem skoruðu aðeins fjögur stig síðustu fimm og hálfu mínútu fyrri hálfleiks. Á meðan lagaðist sóknarleikur Brno sem var með örugga forystu í hálfleik, 19-45. Tékkarnir voru með 58 prósent þriggja stiga nýtingu í fyrri hálfleik en Haukarnir aðeins sjö prósent.

Allt annað var að sjá til Haukaliðsins í byrjun seinni hálfleiks. Það setti fljótlega niður tvo þrista og skoraði tólf af fyrstu fimmtán stigum seinni hálfleiks og minnkaði muninn í 31-48. Þjálfara Brno leist ekkert á það og tók umsvifalaust leikhlé.

Varnarleikur Hauka var til mikillar fyrirmyndar og í sóknarleiknum lét Tinna mikið til sín taka. Hún skoraði sjö af fyrstu fjórtán stigum Hauka í seinni hálfleik.

Haukar unnu 3. leikhlutann, 21-17, og voru því 22 stigum undir, 40-62, fyrir lokaleikhlutann.

Brno komst 25 stigum yfir, 46-71, í byrjun 4. leikhluta en Haukar gáfust ekki upp. Þeir skoruðu tíu stig í röð og minnkuðu muninn í sextán stig, 55-71.

Brno svaraði þessu áhlaupi Hauka með tveimur þristum í röð og þá var björninn unninn. Heimakonur héldu samt áfram allt til loka og hin fimmtán ára Jana Falsdóttir skoraði síðustu stig leiksins. Lokatölur 61-80, Brno í vil.

Af hverju vann Brno?

Tékkarnir voru miklu betri í fyrri hálfleik þar sem þeir hittu frábærlega fyrir utan. Haukar voru í ansi djúpri holu í hálfleik en gerðu vel í seinni hálfleik þótt sigur Brno hafi aldrei verið í hættu.

Gestirnir voru mun sterkari undir körfunni, unnu frákastabaráttuna, 52-33, og tóku meðal annars átján sóknarfráköst.

Hverjar stóðu upp úr?

Tinna Guðrún átti mjög góða kafla í liði Hauka, sérstaklega í byrjun seinni hálfleiks eins og áður var getið. Palmer og Gray voru mjög lengi í gang en komu til í seinni hálfleik. Haukar hefðu samt þurft meira frá þeim, ekki síst þar sem Helenu naut ekki við.

Hvað gekk illa?

Haukar voru á hælunum í byrjun leiks og áttu í stórkostlegum vandræðum í sókninni. Reyndustu leikmenn liðsins náðu sér ekki eins vel á strik og þeir hefðu þurft og Brno náði strax frumkvæðinu. Frammistaða Hauka í fyrri hálfleik hlýtur að vera svekkjandi fyrir þá í ljósi þess hvernig þeir spiluðu í seinni hálfleik.

Hvað gerist næst?

Haukar mæta Grindavík í Subway-deildinni á sunnudaginn. Haukar fara svo til Frakklands og mæta Villeneuve d‘Ascq fjórða leik sínum í riðlakeppninni á miðvikudaginn. Það er jafnframt síðasti leikur Hauka fyrir landsleikjahlé.

Bjarni: Skil ekki hvar við vorum andlega

Bjarni Magnússon var ósáttur við frammistöðu Hauka í fyrri hálfleik.vísir/vilhelm

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var afar ósáttur með frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik gegn Brno í Evrópubikarnum í kvöld.

„Þetta var sitt hvor leikurinn. Ég var mjög óánægður með frammistöðuna í fyrri hálfleik. Ég var langt frá því að vera sáttur. Við vorum hægar, hálf hræddar og eins og við hefðum enga trú á verkefninu,“ sagði Bjarni.

„Seinni hálfleikurinn var mun betri, áræðnin var meiri og þegar þeir fengum hreyfingu í sóknina gekk þetta ágætlega. En svo datt þetta niður inn á milli og var alltof hægt. Á móti þessum liðum þurfum við að halda uppi meiri hraða og færa boltann milli kanta.“

Bjarni var sérstaklega svekktur með frammistöðuna í fyrri hálfleik miðað við hvernig Haukar spiluðu í þeim seinni. Hann hefði viljað sjá lykilmenn liðsins gera meira.

„Þetta var alls ekki það sem við ætluðum að koma með í dag. Ég skil ekki hvar við vorum andlega. Og þessir lykilmenn hjá okkur sem ætla og vilja gera stóra hluta og spila um titla, þú kemur ekki inn í svona leik með svona frammistöðu og ætlast til að góðir hlutir gerist,“ sagði Bjarni.

En hvað breyttist til batnaðar hjá Haukum í seinni hálfleik?

„Við vorum áræðnari og grimmari í vörninni. Við héldum mönnum fyrir framan okkur sem gekk ekki í fyrri hálfleik. Þær löbbuðu allar framhjá okkur í einn á einn vörninni en hún varð aðeins betri,“ sagði Bjarni.

„Svo komu kaflar í sókninni þar sem við færðum boltann betur og þá fengum við betri skot. Heilt yfir hittum við ekki vel en það er eins og það er. En frammistaðan í seinni hálfleik var góð og þess vegna er ennþá meira svekkjandi hvað fyrri hálfleikurinn var dapur.“

Palmer: Mörg lið hefðu gefist upp

Haiden Palmer var stiga-, frákasta- og stoðsendingahæst hjá Haukum gegn Brno.vísir/vilhelm

Haiden Palmer kvaðst stolt af Haukaliðinu eftir leikinn gegn Brno í Evrópubikarnum í kvöld.

„Ég er stolt af liðinu mínu. Við vorum frekar hægar í byrjun en vorum svo áræðnari og kláruðum leikinn vel og liðsheildin þéttist,“ sagði Palmer.

Haukar voru 26 stigum undir í hálfleik þar sem þeir náðu sér engan veginn á strik.

„Við vorum kannski stressaðar. Við flýttum okkur of mikið en svo róuðumst við eftir leikhléið. Pressan fór og við spiluðum okkar leik,“ sagði Palmer.

Frammistaða Hauka í seinni hálfleik var góð og allt annað var að sjá til liðsins en í þeim fyrri.

„Þetta er frábært lið eins og öll liðin sem við spilum við í Evrópubikarnum. Ég er bara stolt af því að við héldum áfram að berjast og urðum betri eftir því sem leið á leikinn. Við framkvæmdum leikkerfin okkar betur og vorum ágengari í vörninni. Við þurfum bara að byrja betur og einbeita okkur að því,“ sagði Palmer.

Hún var ánægðust með baráttuandann í Haukaliðinu í seinni hálfleik.

„Hvernig við börðumst. Hausinn fór niður í bringu þegar forskotið jókst en við komum saman sem lið og vorum ákveðnari, harðari og sóttum oftar á körfuna. Mörg lið hefðu gefist upp en við hristum okkur saman og börðumst af krafti,“ sagði Palmer að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.