Viðskipti innlent

Nanna Kristjana nýr fram­kvæmda­stjóri Keilis

Eiður Þór Árnason skrifar
Nanna Kristjana Traustadóttir segir að Keilir hafi heillað hana sem vinnustaður síðastliðin ár.
Nanna Kristjana Traustadóttir segir að Keilir hafi heillað hana sem vinnustaður síðastliðin ár. Aðsend

Nanna Kristjana Traustadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Keilis. Hún hefur verið settur framkvæmdastjóri frá ágúst 2021 vegna leyfis fráfarandi framkvæmdastjóra.

Nanna hefur starfað frá 2019 sem forstöðumaður stúdentsbrauta hjá Keili og skólameistari Menntaskólans á Ásbrú. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Keili.

Nanna hefur lokið M.Sc. gráðu í tvíþættu kandidatsnámi með efnafræði sem aðalgrein og sálfræði sem aukagrein frá Aalborg Universitet í Danmörku. Hún er auk þess með viðbótardiplómu í kennslufræðum frá Háskóla Íslands og réttindi til að starfa sem grunn- og framhaldsskólakennari.

Við Menntaskólann á Ásbrú sá Nanna um undirbúning og hönnun námskrár vegna nýrrar stúdentsbrautar í tölvuleikjagerð. Áður starfaði Nanna sem kennsluráðgjafi á kennslusviði við Háskólann í Reykjavík og við Tækniskólann sem verkefnisstjóri. 

Þar sá Nanna um undirbúning nýrrar námsbrautar, K2, sem er tækni- og vísindaleið við Tækniskólann. Nanna hefur einnig starfað sem fagstjóri og kennari í náttúrufræðigreinum bæði í Garðaskóla og Öldutúnsskóla og sem kennari við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, að því er fram kemur í tilkynningu.

Keilir skiptist í fjóra skóla: Háskólabrú, Flugakademíu Íslands, Menntaskólann á Ásbrú og Heilsuakademíuna.

Vænta góðs samstarfs um áframhaldandi uppbyggingu

,,Það var mjög góð samstaða um ráðninguna í stjórn Keilis eftir yfirgripsmikið umsóknarferli sem stýrt var af Hagvangi. Nanna býr yfir mikilli reynslu af nýsköpun og stjórnun í skólastarfi og væntir stjórn góðs samstarfs við hana við áframhaldandi uppbyggingu Keilis,“ segir Jón B. Stefánsson, formaður stjórnar Keilis, í tilkynningu.

Nanna Kristjana segir að Keilir hafi heillað hana sem vinnustaður síðastliðin ár

„Ég tel það mikið tækifæri að leiða þróun á þessum frábæra vinnustað, og um leið skapa nemendum farsæla framtíð í framhaldsnámi og/eða atvinnulífinu. Í starfi framkvæmdastjóra Keilis sé ég fyrir mér að skapa einingu sem aðrar menntastofnanir líta til hvað varðar starfsumhverfi, þjónustulund, metnað, framsýni, rekstur og jákvæðan starfsanda. Ég er full tilhlökkunar fyrir því að taka við keflinu og taka næstu mikilvægu skref til framtíðar hjá Keili.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×