Viðskipti innlent

Play bætir við fimmta og sjötta á­fanga­staðnum sínum á Spáni

Atli Ísleifsson skrifar
Flogið verður einu sinni í viku, á miðvikudögum, til Palma á Mallorca og einu sinni í viku, á sunnudögum til Malaga.
Flogið verður einu sinni í viku, á miðvikudögum, til Palma á Mallorca og einu sinni í viku, á sunnudögum til Malaga. Vísir

Flugfélagið Play hefur bætt spænsku áfangastöðunum Mallorca og Malaga við sumaráætlun sína árið 2022. Það þýðir að Play selur nú flug til sex áfangastaða á Spáni en flugfélagið býður nú þegar upp á áætlunarflug til Barcelona, Tenerife, Alicante og Gran Canaria.

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að flogið verði einu sinni í viku, á miðvikudögum, til Palma á Mallorca og einu sinni í viku, á sunnudögum til Malaga.

„Malaga, heimabær Pablo Picasso, er sólríkasta borg Spánar en þessi fallega hafnarborg við Miðjarðarhafið er mjög vinsæl meðal ferðamanna. Það sama má segja um borgina Palma á paradísareyjunni Mallorca þar sem hreinar strendur, volgur sjór, náttúrufegurð og fallegur arkitektúr lokka til sín ferðamenn,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Birgi Jónssyni forstjóra að það sé óhætt að segja að Íslendingar njóti sín vel á Spáni. Frá því að Play hóf miðasölu hafi strax orðið gríðarleg eftirspurn eftir farmiðum til Spánar. „Við finnum einnig vel fyrir áhuga Spánverja á að koma til Íslands. Nýju áfangastaðirnir gefa þeim eldri ekkert eftir enda eru þetta sannkallaðar paradísarborgir og við hlökkum til að fljúga sólþyrstum Íslendingum á nýja staði,“ er haft eftir Birgi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×