Rafíþróttir

Ótrúlegur viðsnúningur tryggði Cloud9 upp úr A-riðli með heimsmeisturunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jesper „Zven“ Svenningsen fagnaði vel og innilega þegar að Cloud9 tryggði sér sæti í átta liða úrslitum.
Jesper „Zven“ Svenningsen fagnaði vel og innilega þegar að Cloud9 tryggði sér sæti í átta liða úrslitum.

Ríkjandi heimsmeistarar í DWG KIA tryggðu sig örugglega upp úr A-riðli á Heimsmeistaramótinu í League og Legends í dag, ásamt Cloud9. Þeir síðarnefndu fóru bakdyramegin upp úr riðlinum eftir að hafa tapað fyrstu þrem leikjum sínum.

Allur dagurinn var undirlagður af því að klára keppni í A-riðli. hvert lið spilaði þrjá leiki, og Cloud9 þurfti að vinna að minnsta kosti tvo þeirra, ásamt því að treysta á önnur úrslit, til að tryggja sér jafna stöðu í riðlinum, en ef tvö eða fleiri lið eru jöfn þegar öllum leikjunum er lokið þarf að grípa til innbyrgðis vipureigna.

Fyrsti leikur dagsins var þó viðureign DWG KIA og FPX, en þessum tveim liðum var fyrirfram spáð upp úr riðlinum. DWG KIA hélt sigurgöngu sinni áfram og hafði nú unnið alla fjóra leiki sína á mótinu.

Cloud9 spilaði næstu tvo leiki dagsins og þurfti á sigri að halda í báðum þeirra. Liðið byrjaði á öruggum sigri gegn Rogue og fylgdi honum eftir með öðrum öruggum sigri gegn FPX. Cloud9 var nú búið að auka möguleika sína á að komast upp úr riðlinum til muna, en liðið þurfti nú ekki lengur aðeins að treysta á sjálfa sig, heldur gátu önnur úrslit einnig komið þeim í jafna stöðu.

Í fjórðu viðureign dagsins héldu heimsmeistararnir í DWG KIA sigurgöngu inni enn frekar áfram og í þetta skipti var það Rogue sem varð fyrir barðinu á þeim.

Fimmta viðureign dagsins var svo sú mikilvægasta til þessa, en þar mættust Rogue og FPX. Tap hjá Rogue myndi þýða að þeir væru úr leik og að FPX væri með þrjá sigra og þar af leiðandi í það minnsta með öruggt sæti í úrslitaleik um annað sætið. 

Það var þó evrópska liðið Rogue sem bar sigur úr býtum og því voru þrjú lið jöfn í öðru sæti fyrir lokaleik riðilsins. 

Lokaleikurinn var viðureign Cloud9 og DWG KIA þar sem að Cloud9 gat tryggt sér sæti í átta liða úrslitum með því að verða fyrsta liðið til að sigra ríkjandi heimsmeistara. Tap hjá Cloud9 myndi þó þýða að þrjú lið væru jöfn og þyrftu að spila innbyrgðis um annað sæti A-riðils.

Ekki tókst Cloud9 að skáka heimsmeisturnunum frekar en öðrum, og því þurfti að spila aukaleiki til að skera úr um hvaða lið færi upp með DWG KIA.

Þar sem að þrjú lið þurftu að spila um eitt sæti fékk Cloud9 að sitja hjá í fyrstu umferð þar sem að þeir höfðu unnið sína sigra á stystum tíma. FPX og Rogue mættust því í hálfgerðum undanrúslitum þar sem sigurliðið myndi mæta Cloud9 í úrslitum.

Eftir jafnar fyrstu tuttugu mínútur tóku Rogue forystuna og stundarfjórðungi seinna voru þeir búnir að slá heimsmeistarana frá árinu 2019 úr leik.

Það var því Rogue sem mætti Cloud9 í úrslitaviðuregin um annað sæti A-riðils, og sæti í átta liða úrslitum Heimsmeistaramótsins.

Sú viðureign olli engum vonbriðgum, en það virtist ekkert geta skilið liðin að. Eftir tuttugu mínútur af League of Legends var allt í járnum, og sömu sögu var að segja tuttugu mínútum síðar.

Það var ekki fyrr en að Cloud9 tók sinn fjórða eld dreka, og þar með drekasál eftir rúma 47 mínútur, að þeir fóru að slíta sig frá andstæðingum sínum.

Eftir 54 mínútur af æsispennandi leik af League of Legends tryggði Cloud9 sér sæti í átta liða úrslitum eftir að hafa byrjað daginn með þrjú töp og engan sigur.

Heimsmeistaramótið í League of Legends heldur áfram á morgun, en þá verður B-riðill kláraður. Þar er Edward Gaming í efsta sæti með þrjá sigra og ekkert tap, en þar á eftir kemur gamla stórveldið T1 með tvo sigra og eitt tap. 100 Thieves er í þriðja sæti og DetonatioN FocusMe reka lestina.

Eins og áður verður sýnt frá morgundeginum í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport frá klukkan 11:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×