Handbolti

Sex íslensk mörk þegar Magdeburg fór áfram í Sádí Arabíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skorar hér fyrir Magdeburg liðið. Hann skoraði fimm mörk í dag.
Ómar Ingi Magnússon skorar hér fyrir Magdeburg liðið. Hann skoraði fimm mörk í dag. Getty/Swen Pförtner

Íslendingaliðið Magdeburg tryggði sér sæti í undanúrslitum heimsmeistarakeppni félagsliða í dag með sannfærandi sigri á Asíumeisturum Al Duhail frá Katar.

Magdeburg vann leikinn á endanum með tólf marka mun, 35-23, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 16-9.

Íslensku landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson spila með þýska liðinu.

Ómar Ingi skoraði fimm mörk úr sjö skotum og Gísli var með eitt mark úr tveimur skotum. Michael Damgaard og Tim Hornke voru markahæstir í liðinu með sex mörk hvor.

Magdeburg liðið er á svaka skrið og búið að vinna sex fyrstu leiki sína í þýsku deildinni. Þeir kólnuðu ekkert við það að skella sér í hitann til Sádí Arabíu þar sem heimsmeistarakeppnin fer fram í borginni Jeddah á vesturströndinni.

Þetta var annar sigur Magdeburg í keppninni en liðið vann tólf marka sigur á ástralska liðinu Sydney Uni Handball Club í fyrstu umferðinni.

Magdeburg mætir nú annað hvort danska liðinu Aalborg Håndbold eða Al Wehda frá Sádí Arabíu í undanúrslitaleiknum. Þau lið mætast í sínum leik í átta liða úrslitunum seinna í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.