Körfubolti

Þriðja tapið í röð hjá Tryggva og félögum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eftir tvo sigurleiki í fyrstu tveim leikjum tímabilsins hafa Tryggvi og félagar nú tapað þrem í röð.
Eftir tvo sigurleiki í fyrstu tveim leikjum tímabilsins hafa Tryggvi og félagar nú tapað þrem í röð. Oscar J. Barroso / AFP7 / Europa Press Sports via Getty Images

Tryggvi Hlinason og félagar hans í Zaragoza töpuðu sínum þriðja leik í röð í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta þegar að liðið heimsótti Barcelona í kvöld. Lokatölur 76-63, en Barcelona er enn með fullt hús stiga.

Heimamenn í Barcelona náðu góðu forskoti í fyrsta leikhluta, en að honum loknum var staðan 25-16.

Tryggvi og félagar náðu að slípa saman vörnina fyrir hálfleik og héldu heimamönnum í 11 stigum í öðrum leikhluta. Þó vantaði upp á að Zaragoza myndi setja fleiri stig á töfluna, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 36-31, Barcelona í vil.

Enn gekk illa hjá Tryggva og félögum í sóknarleiknum í seinni hálfleik og heimamenn gátu því aukið forskot sitt aftur. Þegar komið var að lokaleikhlutanum var munurinn orðin tíu stig, 54-44.

Heimamenn settu í fluggírinn í upphafi fjórða leikhluta og náðu fljótt að auka forskot sitt í 20 stig. Tryggvi og félagar náðu aldrei að brúa bilið og það voru því heimamenn sem unnu að lokum öruggan 13 stiga sigur, 76-63.

Tryggvi skoraði fjögur stig fyrir gestina og tók þrjú fráköst. Eins og áður segir hefur Zaragoza nú tapað þrem leikjum í röð og situr í níunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×