Viðskipti innlent

Lands­bankinn spáir einnig stýri­vaxta­hækkun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsbankinn spáir því að stýrivextir hækki um 0,25 prósent í næstu viku.
Landsbankinn spáir því að stýrivextir hækki um 0,25 prósent í næstu viku. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn tekur undir spá Íslandsbankans frá því í gær um að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig í næstu viku. Bankinn telur þó ekki útilokað að stýrivextir hækki um 0,5 prósentustig.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans þar sem bankinn spáir því að stýrivextir verði 1,25 prósent eftir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans á miðvikudaginn í næstu viku.

Í Hagsjánni segir að greinendur Landsbankans telji að vaxtahækkun nú væri fremur eðlilegt framhald af síðasta fundi peningastefnunefndar, þar sem tveir nefndarmenn hefðu frekar kosið 0,5 prósentustiga hækkun, fremur en þá 0,25 prósentustiga hækkun sem tilkynnt á síðasta stýrivaxtaákvörðunardegi í ágúst.

„Hagkerfið er á leiðinni upp úr öldudalnum, verðbólga yfir markmiði og því eðlilegt að draga aðeins úr slaka peningastefnunnar. Frá síðasta fundi nefndarinnar hefur krónan veikst lítillega og spáum við að verðbólga verði 4,3% nú á þriðja fjórðungi sem yrði ögn meira en Seðlabankinn spáði í ágúst en þá spáði hann 4,2% verðbólgu,“ segir Hagsjánni.

Útiloka ekki 0,5 prósentustiga hækkun

Þá segir í Hagsjá bankans að í ljósi þess að tveir nefndarmenn hafi viljað frekari hækkun síðast, sé ekki hægt að útiloka að nú verði stýrivextir hækkaðir um 0,5 prósentustig.

„Það sem mælir hins vegar á móti þörf fyrir brattari stýrivaxtahækkun nú er að enn á eftir að gefa fyrri vaxtahækkunum tíma til að virka að fullu auk þess sem óljóst er hversu kælandi áhrif innleiðing á nýjum reglum um hámarksgreiðslubyrði munu hafa á íbúðamarkaðinn,“ segir í Hagsjánni.

Í Hagsjánni, sem lesa má hér, segir einnig að ljóst sé að 0,25 prósentustiga hækkun stýrivaxta, ofan á fyrri vaxtahækkanir, muni hafa teljandi áhrif á eftirspurn í gegnum vaxtakjör heimila, þar sem um þriðjungur heimila er með fasteignalán á óverðtryggðum breytilegum vöxtum.

Gera má ráð fyrir að slíkir vextir hækki hjá bönkunum ákveði Seðlabankinn að hækka stýrivexti í næstu viku.


Tengdar fréttir

Íslandsbanki spáir stýrivaxtahækkun í næstu viku

Íslandsbanki spáir því að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti um 0,25 prósentur á næsta vaxtaákvörðunardegi, sem er á miðvikudaginn í næstu viku, þann 6. október. Gangi spáin eftir verða stýrivextir 1,5 prósent.

Tveir af fimm vildu hækka stýri­vexti meira en gert var

Tveir af fimm nefndarmönnum peningastefnunefndar Seðlabankans vildu hækka stýrivexti meira en gert var við síðustu stýrivaxtaákvörðun bankans sem kynnt var fyrir um tveimur vikum. Nefndin ákvað þá að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur í 1,25 prósentur.

Seðlabankinn hækkar stýrivexti

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1,25%.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.