Handbolti

Get ekki út­skýrt af­hverju þeir gerðu ekki betur

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar. VÍSIR/DANÍEL

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var svekktur með jöfnunarmark Hauka undir lok leiks liðanna í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Afturelding átti síðustu sókn leiksins en klukkan rann út og leiknum lauk því með 26-26 jafntefli.

„Þeir eiga þrjár sendingar eftir þegar þeir taka leikhlé og við einu yfir. Það er svekkjandi, að fá þetta mark á sig í lokin. Svo get ég ekki sagt neitt um þessa lokasókn, við náum ekki skoti. Þetta er svekkjandi, ég er svekktur að fá ekki tvö stig en ég er ótrúlega ánægður með spilamennskuna. Mér fannst þeir spila ótrúlega vel í kvöld, bæði vörn og sókn. Margt mjög gott, frammistaðan fín og svekkjandi að fá ekki tvö stig.“

Gunnar tekur leikhlé fyrir lokasókn Aftureldingar. Haukar voru þá nýbúnir að skora og jafna leikinn. Enginn tók af skarið í liði Aftureldingar til þess að koma þeim yfir og endaði leikurinn því  jafntefli.

„Við ætluðum bara að spila taktík og ætluðum að sækja á markið og koma okkur í skotfæri. Maður veit aldrei hver fær skotfæri. Ég get ekki útskýrt afhverju þeir gerðu ekki betur. Kannski var ég ekki nógu skýr í leikhléinu. Ég þarf bara að skoða það en þetta er bara eitt atriði.“

„Við þurfum að læra af þessu, kannski reynsluleysi, ég veit það ekki. Engu að síður var þetta frábær frammistaða, mjög ánægður með þetta. Við löguðum vörnina mikið frá því í síðasta leik. Kannski svekkjandi að vera búinn að spila tvo góða leiki, að mínu mati, og eitt stig finnst mér ekki nógu mikið miðað við hvernig er spilað.“

Bergvin Þór Gíslasson, leikmaður Aftureldingar, fékk rautt spjald þegar um 20 mínútur voru liðnar fyrir hafa slegið Ólaf Ægi Ólafsson í andlitið. 

„Ég sá það ekki. Þeir kíktu á þetta, eflaust er það rétt. Þeir fara varla í skjáinn og dæma það vitlaust. Hann hefur væntanlega slegið hann, ég bara missti af því.“

Gunnar Magnússon var með þrjá Haukamenn á láni í sínu liði í kvöld.

„Bara vel. Það er ekkert auðvelt að spila á móti sínu liði. Ég var svolítið smeykur fyrir leikinn hvort þeir myndu höndla þetta eða ekki. Mér fannst þeir höndla þetta nokkuð vel og ég var ánægður með þá. Heilt yfir bara í kvöld þá fannst mér góð breidd hjá okkur og margir að leggja í púkkið.“ 

Næsti leikur er bikarleikur á móti Val og vill Gunnar sjá sigur. 

„Taka tvö stig. Við erum búnir að spila vel og við höldum áfram að bæta okkur. Undirbúningstímabilið var erfitt að við komum seint inn. Við erum núna að fínpússa okkur í hverjum leik og hverri viku. Nú þurfum við að vinna næsta leik, það er bikarleikur og við ætlum okkur að vinna hann.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.