Haukakonan Jana Falsdóttir spilað átta mínútur hjá Haukunum í gær og skilaði mikilvægu hlutverki þegar hin bandaríska Haiden Denise Palmer lenti í villuvandræðum.
Jana er aðeins fimmtán ára gömul en hún heldur ekki upp á sextán ára afmælið sitt fyrr en í lok nóvember.
Jana varð ekki aðeins yngsta íslenska körfuboltakonan til að spila Evrópuleik því hún var einnig sú yngsta til að skora í Evrópuleik.
Jana skoraði laglega körfu í fjórða leikhluta þegar hún kom Haukum í 63-59. Það var því allt undir þegar hún lék laglega að körfunni og tók síðan sveifluskot úr teignum.
„Jana fer skemmtilega með boltann, þetta er flókið skot hjá Jönu Falsdóttur sem setur hann samt niður,“ sagði Sigurður Orri Kristjánsson í beinni útsendingu frá leiknum á Stöð 2 Sport í gærkvöldi. Það má sjá þessa körfu Jönu hér fyrir ofan.
Jana bætti met Unnar Töru Jónsdóttur sem var áður sú yngsta til að spila Evrópuleik. Unnur Tara spilað sinn fyrsta Evrópuleik 16 ára, 6 mánaða og 6 daga. Jana var aðeins 15 ára, 9 mánaða og 25 daga gömul í gær.
Jana bætti einnig met Rögnu Margrétar Brynjarsdóttur yfir þá yngstu til að skora stig í Evrópukeppni í körfubolta (16 ára og 8 mánaða) og met Klöru Guðmundsdóttir yfir þá yngstu til að skora körfu í Evrópukeppni í körfubolta en Klara var 16 ára, 8 mánaða og 20 daga gömul þegar hún skoraði körfu fyrir Hauka í Evrópuleik í nóvember 2006.
Jana á ekki langt að sækja hæfileikana en foreldrar hennar, Falur Harðarson og Margrét Sturlaugsdóttir, eru bæði margfaldir Íslandsmeistarar með Keflavík og léku samtals 112 A-landsleiki fyrir Ísland.