Skoðun

Fyrstu kynni mín af stjórn­mála­flokkum

Stefán Atli Rúnarsson skrifar

Enginn hefur skoðun á öllu, en allir hafa skoðun á einhverju sagði einhver fróð manneskja örugglega einhvern tímann.

Ég hef aldrei verið mikið að velta mér upp úr stjórnmálum, en með aldrinum hefur áhuginn stigmagnast. Fyrstu minningar mínar af stjórnmálaflokki eru af Framsóknarflokknum.

Ég var 6 ára drengur sem bjó í Grafarvogi og Framsóknarflokkurinn var að halda viðburð til þess að kynna sig, ég sá börn hlaupandi um með frostpinna, pylsur, grænar blöðrur og gleði.

Ég gekk upp að manni sem ég komst síðar að því að hefði verið Halldór heitinn Ásgrímsson og spurði hann með minni mjúku barnsrödd, hvar er ísinn?

Eftir að hafa fengið grænan ís frá framsóknarflokknum hefur þessi minning alltaf verið mér ofarlega í huga. Önnur minning sem ég á af íslenskum stjórnmálaflokkum er að afi minn heitinn hafi flaggað samfylkingar fánanum í sínum húsum og ef ég man rétt var hann líka með veggspjald af Jóhönnu Sigurðardóttur með áletruninni, minn tími mun koma hangandi upp á vegg. Fyrsta minning mín af Sjálfstæðisflokknum er Örn Árnason með hárkollu í Spaugstofunni að leika Davíð Oddsson. Eftir því sem maður verður eldri, allavega í mínu tilfelli. Fer maður að átta sig á því hversu mikil áhrif stjórnmál hafa á mann, á næstum alla vegu.

Stefnumótunarstarf fyrirtækisins Íslands er í okkar höndum, höndum okkar borgaranna. Að lifa í lýðræðislegu ríki og að fá tækifæri til þess að kjósa sér þjóðarleiðtoga á fjögurra ára fresti finnst mér vera mjög hátíðlegt og eitthvað sem við ættum ALDREI að taka sem sjálfsögðum hlut. Þess vegna finnst mér sorglegt þegar fólk á mínum aldri hugsar sér ekki þess kost að mæta á kjörstað og segir jafnvel “ég nenni ekki að pæla í þessu, þetta mun ekki breyta neinu”.

Auðvitað er erfitt að sjá breytingar þegar maður horfir kannski á lífið dag frá degi, viku fyrir viku. En þegar maður þysjar upp og skoðar áratuga myndina er hægt að sjá að með hverjum mánuðinum er samfélag okkar alltaf breytast, þökk sé tækniframförum. Látum ekki lýðræðið leka úr höndum okkar. Nýtum kosningaréttinn og kjósum 25. september.

Höfundur er viðskiptafræðingur og fjölmiðlatæknir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.