Skoðun

Heilbrigðisskimun allra er réttlætismál

Vilborg Þóranna Bergmann Kristjánsdóttir skrifar

Heilbrigðismálin hafa verið fyrirferðamikil í aðdraganda kosninga sem er skiljanlegt í ljósi þess hve núverandi ríkisstjórn hefur haldið þar illa á málum. En það þarf að nálgast þessi mál á nýjan hátt og það er það sem Miðflokkurinn hefur gert, með róttækum tillögum um kerfisbreytingar þar sem heilsuvernd allra verður í forgrunni. Þar skiptir mestu að Miðflokkurinn leggur sérstaka áherslu á að öllum íslenskum ríkisborgurum, búsettum á Íslandi, 40 ára og eldri, standi til boða almenn heilbrigðisskimun á þriggja ára fresti þeim að kostnaðarlausu. Um leið verði tryggt að þegar tilefni þykir til verði hægt að kalla eftir auka skimun. Með þessum hætti fá allir landsmenn aðgang að heilbrigðiseftirliti og þurfa ekki að hugsa um að þeir hafi orðið að sparað við sig heilbrigðisþjónustu einhverra hluta vegna. Með skimun eins og Miðflokkurinn leggur til verður hægt að grípa miklu fyrr inní ef sjúkdómar láta á sér kræla, aðkomu heilbrigðiskerfisins að eftirliti verður gerbreytt sem á að tryggja betri heilsu fyrir alla og minni kostnað fyrir ríkissjóð þegar upp er staðið

Miðflokkurinn leggur áherslu á að tryggja beri öllum Íslendingum jafnt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og þannig verði jafnstaða allra landsmanna gagnvart þjónustunni höfð að leiðarljósi. Í því skyni verði horfið frá samþjöppunarstefnu í heilbrigðismálum og þjónustan færð nær almenningi um allt land. Heilbrigðiskerfið þarfnast endurskoðunar til að tryggja sem besta nýtingu fjármagns með það að markmiði að hámarka þjónustu við sjúklinga. Ríkið þarf því að nýta þjónustu þeirra sem eru best til þess fallnir að veita lækningar á viðunandi kjörum, en einnig krafta góðgerðarsamtaka og sjálfstæðra félaga, sem hafa skipt sköpum við að aðstoða sjúklinga og bæta lýðheilsu og gera það enn.

Með því að eyða biðlistum, fjölga hjúkrunar- og þjónusturýmum og efla heimaþjónustu má draga úr óþarfa kostnaði í heilbrigðiskerfinu og bæta líf sjúklinga og eldri borgara á Íslandi. Það er mikilvægt að þjónusta við sjúklinga verið byggð upp um allt land, núverandi heilbrigðisstofnanir verði betur nýttar og nýjar reistar. Með öllum þessum tillögum hyggst Miðflokkurinn taka á þeim kerfislæga vanda sem ríkir í heilbrigðisþjónustunni.

Höfundur skipar efsta sæti á liðsta Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×