Handbolti

„Sá þetta kannski aðeins öðruvísi fyrir mér þegar ég mætti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjúkraþjálfari Kielce hugar að Hauki Þrastarsyni eftir að hann meiddist í leik gegn Elverum í Meistaradeild Evrópu síðasta haust. Seinna kom í ljós að hann sleit krossband í hné.
Sjúkraþjálfari Kielce hugar að Hauki Þrastarsyni eftir að hann meiddist í leik gegn Elverum í Meistaradeild Evrópu síðasta haust. Seinna kom í ljós að hann sleit krossband í hné. epa/GEIR OLSEN

Haukur Þrastarson hefur lítið getað spilað með pólska stórliðinu Kielce síðan hann kom til þess frá Selfossi í fyrra.

Haukur ristarbrotnaði í fyrrasumar, þurfti að fara í aðgerð og var meiddur þegar hann kom út til Kielce. Eftir að hafa náð sér lék hann nokkra leiki með liðinu áður en hann sleit krossband í hné í leik gegn Elverum í Meistaradeild Evrópu 2. október.

Í kjölfarið fór Haukur í aðgerð og var svo í endurhæfingu heima á Selfossi. Hann sneri aftur til Póllands í sumar og tók þátt í undirbúningstímabili Kielce. Hann kom ekki við sögu í fyrstu tveimur leikjum liðsins í pólsku úrvalsdeildinni en vonast til að vera orðinn klár áður en langt um líður.

„Þetta hefur verið mikið ströggl síðan ég kom hingað og ég sá þetta kannski aðeins öðruvísi fyrir mér þegar ég mætti. Maður hefur lent í alls konar og verið lítið með. Það er hrikalega spennandi að byrja þetta almennilega,“ sagði Haukur í samtali við Vísi.

Ekkert virðist vanta upp á trú forráðamanna Kielce á Hauki en þegar hann kom til Póllands í fyrra framlengdi félagið samning hans um tvö ár, jafnvel þótt hann hefði ekki spilað leik fyrir það. Haukur er þakklátur fyrir hvernig Kielce hefur staðið við bakið á honum í endurhæfingunni.

„Þetta er að mestu undir manni sjálfum komið en ég finn alveg að það er trú á mér. Þeir hafa verið mjög skilningsríkir, sveigjanlegir og gefið mér allan þann tíma sem ég hef þurft. Eins og staðan er núna er ég ekki alveg klár en það er ekki verið að ýta á eftir mér,“ sagði Haukur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.