Skoðun

Splúnkunýtt líf

Kári Stefánsson skrifar

Fram að þessu hefur verið nokkuð einfalt fyrir okkur Íslendinga að átta okkur á því hvernig við ættum að haga okkur í farsóttinni. Sóttvarnaryfirvöld undir stjórn Þórólfs hafa verið skýrmælt; fyrirmæli þeirra hafa skilist, hljómað sannfærandi og reynst vel. Nú er hins vegar svo komið málum að það er ómögulegt fyrir almenning að átta sig á því hvað er gangi og ég er hræddur um að það sama eigi við um sóttvarnaryfirvöld. Þau eru farin að hljóma eins og þau séu ekki alveg vissum að fyrirmæli þeirra séu öll af hinu góða og um leið og þau hætta að trúa eigin orðum er hætta á því að aðrir geri það líka. Þegar fyrirmæli sem sóttvarnaryfirvöld eru að vandræðast með skerða lífsgæði okkar er kominn tími til þess að endurskoða.

Eftirfarandi er mín sýn á málið:

Eins og málum er nú háttað ættum við að afnema fjöldatakmarkanir vegna þess að þær sem eru í gildi núna eru illverjanlegar; það er til dæmis erfitt að sýna fram á að smitandi einstaklingur myndi smita fleiri í 2000 manna samkomu en 200 manna. Leyfum leikhúsum og tónleikasölum að nýta öll sín sæti með þeim skilyrðum að það yrði hleypt inn og út í hollum, engin hlé og gestir sætu með sóttvarnargrímur. Kannski fælist í þessu einhver áhætta sem er erfitt að meta en hún er ekki mikil. Með þessu væri hægt að endurvekja menningarlíf í landinu og bjarga sviðslistum frá útrýmingu. Vínveitingastöðum yrði hins vegar enn um sinn lokað klukkan ellefu á kvöldin vegna þess að eins og bæði bylgja þrjú og fjögur sýndu okkur þá minnkar áfengisnotkun hömlur og breytir hegðun manna að því marki að það eykur til muna líkur á smitum. Hugmyndin um að nota hraðpróf er ekki góð. Þau eru ónákvæm, villandi og í alla staði óþörf peningaeyðsla. Við höldum áfram að verja landamærin.

Höfundur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.