Skoðun

Út­rýmum fá­tækt, það er hægt

Bjarki Steinn Bragason skrifar

Þegar ég heyrði fyrst talað um útrýmingu fátæktar voru fyrstu viðbrögð þau að það væri göfugt markmið en óraunhæft. Dæmt af samræðum mínum við ýmist annað fólk virðist þetta vera algengt viðhorf. Það er kannski skiljanlegt. Við ólumst öll upp í þessu kapítalíska samfélagi og erum að vissu leyti forrituð til að sjá heiminn í gegnum þau gleraugu. Samkvæmt þeim búum við í samfélagi þar sem lífskjarabaráttan er samkeppni sem sumir tapa og aðrir vinna. Í þeim heimi þykir það ekkert óeðlilegt að sumir eigi meira en þeir munu nokkurn tímann þurfa á meðan aðra skortir grunnnauðsynjar. Fólk gengur jafnvel það langt að tala um þessa samfélagsmynd eins og náttúrulögmál, að svona þurfi hlutirnir einfaldlega að vera. Þetta á jafnvel við um fólk sem skilgreinir sig sem hluta af vinstri vængnum. Fólk vill lina þjáningar þeirra verst settu en hikar við að tala um grundvallarbreytingar á samfélaginu og forðast stóru spurningarnar, eins og af hverju fólk er fátækt til að byrja með.

Mikilvægt er að tala ekki bara um fátækt á fræðilegum nótum. Við þurfum að tala um nákvæmlega hvað fátækt er og þau áhrif sem hún hefur á fólk og samfélög. Hlusta á reynslusögur fólks, til dæmis fólks sem hefur ekki efni á húsnæði, eða þarf reglulega að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Fátækt er ekki bara erfið og leiðinleg, hún er dauðadómur. Fólk sem upplifir efnahagslegan skort lifir erfiðari og styttri lífum. Fátækt er afleiðing pólitískra ákvarðana, ákvarðana stjórnmálafólks sem þjónar auðvaldinu en ekki almenningi. Sósíalistaflokkurinn er með metnaðarfulla áætlun til að útrýma fátækt á Íslandi. Það segir sig sjálft að enginn ætti að upplifa skort í ríku landi. Þetta eru ekki draumórar heldur pólitísk stefnumál, sem snúast meðal annars um að byggja upp réttlátara skattkerfi, húsnæðiskerfi og heilbrigðiskerfi. Það sem þarf er að fólk með völd í samfélaginu sé tilbúið í að nota þau völd til að efla stöðu þeirra verst settu en ekki bara sína og vina sinna. Sósíalistaflokkurinn vill efla verkalýðinn á kostnað auðvaldsins. Auðvaldið sér fátækt fólk sem vandamál, en sér ekkert að því að það sé fátækt. Réttara sagt er þeim mjög annt um að halda því í fátækt, því auðvaldið getur bara viðhaldið sinni stöðu með því að halda áfram að arðræna verkalýðinn.

Ég er sósíalisti. Ég gekk í sósíalistaflokkinn og fór í framboð því ég vildi taka þátt í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi, samfélagi sem virkar fyrir okkur öll en ekki bara örfá á toppnum. Það tel ég okkur ekki hafa núna, samfélag gegnumsýrt af ójöfnuði og stéttaskiptingu verður seint kallað réttlátt. Kapítalisminn virkar kannski vel fyrir þau sem hann virkar fyrir, en við hin þurfum að sætta okkur við brauðmola og of mörg lifa við fátækt, örbirgð og þjáningar. Svona þarf þetta ekki að vera. Betri heimur er ekki útópískur draumur úr vísindaskáldsögu heldur eitthvað sem er innan seilingar. En það þarf að berjast fyrir honum. Útrýming fátæktar er ekki bara eitthvað áhugamál sósíalista heldur eitt mikilvægasta réttlætismál samtímans og raunhæft pólitískt markmið, ef metnaður og vilji er fyrir því. Ekki hlusta á fólk sem reynir að sannfæra þig um annað.

Höfundur er skólaliði, námsmaður og frambjóðandi fyrir Sósíalistaflokkinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×