Tónlist

Löng bið eftir plötu Dra­ke loks á enda

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Drake hefur látið bíða eftir sér. Hvort biðin hafi verið þess virði verða hlustendur Certified Lover Boy að dæma um sjálfir. 
Drake hefur látið bíða eftir sér. Hvort biðin hafi verið þess virði verða hlustendur Certified Lover Boy að dæma um sjálfir.  getty/paras griffin

Drake gaf í morgun út sína sjöttu stúdíóplötu, Certified Lover Boy. Tónlistarunnendur hafa þurft að bíða í þrjú ár eftir stúdíóplötu frá þessum vinsælasta tónlistarmanni heims í dag.

Platan samanstendur af 21 lagi með gestakomum ekki ómerkari tónlistarmanna en til dæmis Jay-Z, Future, Travis Scott, Lil Baby og Young Thug, svo aðeins hluti þeirra sé nefndur.

Og platan hefst á djörfum nótum með sampli af Bítlalaginu vinsæla Michelle og eru þeir John Lennon og Paul McCartney titlaðir sem höfundar á laginu með Drake.

Það er ólíkt Drake að láta aðdáendur sína bíða svo lengi eftir nýju efni og hann hefur gert síðustu ár. Einu sinni áður hafa þrjú ár liðið milli stúdíóplatna hans, Nothing Was the Same kom út árið 2013 og Wiews árið 2016.

Á árunum þar á milli gaf hann þó út plöturnar If You're Reading This It's Too Late, sem naut gríðarlegra vinsælda, og What A Time To Be Alive í samstarfi við tónlistarmanninn Future. Þær flokkast ekki sem eiginlegar stúdíóplötur þó þær séu eflaust í uppáhaldi margra aðdáenda tónlistarmannsins.

Ekkert eins bitastætt hefur komið frá Drake frá því hann gaf út síðustu stúdíóplötu sína Scorpion sumarið 2018. Í millitíðinni gaf hann út safnplötuna Care Package, sem samanstendur af eldri singlum hans, og mixteipið Dark Lane Demo Tapes, sem náði aldrei sambærilegu flugi og fyrri plötur hans.

Certified Lover Boy átti síðan upprunalega að koma út í janúar 2021 en þeim útgáfudegi var frestað.

En nú er biðin á enda; Certified Lover Boy er komin út og ný tónlist frá Drake mun eflaust hljóma víðast hvar um landið í haust.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.