Viðskipti erlent

Börnum bannað að spila meira en þrjá tíma í viku í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Ungur drengur spilar leik í síma.
Ungur drengur spilar leik í síma. Getty

Börn í Kína mega einungis spila netleiki í þrjá tíma á viku. Leikjafyrirtækjum hefur verið gert að ganga úr skugga um að börn geti ekki spilað slíka leiki nema frá klukkan átta til níu að kvöldi á föstudags, laugardags og sunnudagskvöldum.

Börn mega einnig spila í klukkutíma á frídögum, samkvæmt nýjum reglum sem settar voru á í dag. Áður voru reglur í Kína á þá leið á börn máttu spila í þrjá tíma á dag um helgar og einn og hálfan tíma á virkum dögum.

Þetta kemur fram í fréttum Guardian og Bloomberg sem vitna í ríkismiðla í Kína.

Bloomberg segir virði hlutabréfa Tencent og Netease hafa lækkað verulega í dag.

Reglurnar fela einnig í sér að allir netleikir verði að vera tengdir sérstöku kerfi ríkisins sem sporni gegn leikjafíkn og ekki verði hægt að spila þá án þess að skrá raunverulegt nafn og aldur. Þá verður opinbert eftirlit með leikjafyrirtækjum og því hvort verið sé að fylgja reglunum aukið verulega.

Kommúnistaflokkur Kína hefur að undanförnu beitt sér af hörku við að koma böndum á stærstu tæknifyrirtæki landsins eins og Tencent og NetEase, sem eru umfangsmikil á sviði netleikja. Ráðamenn hafa sömuleiðis beint sjónum sínum að tölvuleikjaspilun barna og hafa lýst tölvuleikjum sem stafrænum fíkniefnum.

Nýju reglurnar eru sagðar til marks um vilja ráðamanna í Kína til að koma í veg fyrir leikjafíkn meðal ungmenna og beina þeim að öðrum áhugamálum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×