Handbolti

Fengu að seinka Evrópuleikjunum og mæta Porec um þarnæstu helgi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson og Valsmennirnir hans fara til Króatíu í næstu viku.
Snorri Steinn Guðjónsson og Valsmennirnir hans fara til Króatíu í næstu viku. vísir/Hulda Margrét

Valur spilar leiki sína gegn Porec í Króatíu í 1. umferð Evrópudeildarinnar í handbolta í næstu viku, að því gefnu að allir leikmenn liðsins fái neikvæða niðurstöðu út úr kórónuveiruprófi á morgun.

Valsmenn áttu að fara til Króatíu í gær og spila gegn Porec á morgun og laugardaginn. Ekkert varð af því eftir að þrír leikmenn liðsins greindust með kórónuveiruna.

Allt lið Vals fór í skimun á mánudaginn en ekki reyndust fleiri smitaðir en þrír sem höfðu þegar fengið jákvæða niðurstöðu. Íslandsmeistararnir voru hins vegar sendir í sóttkví fram á föstudag.

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, staðfesti við Vísi í dag að beiðni Vals um að spila leikina gegn Porec á föstudaginn og laugardaginn í næstu viku hafi verið samþykkt.

„Við stefnum á að spila aðra helgi og fara út á miðvikudaginn,“ sagði Snorri. Valsmenn fara í aðra skimun á morgun og að öllu óbreyttu losna þeir úr sóttkví þá.

„Á morgun fara allir í próf og að því gefnu að allir fái neikvætt úr því byrjum við bara að æfa, og undirbúa okkur fyrir þessa leiki og þrumum okkur svo í þetta.“

Þremenningarnir við ágæta heilsu

Sem fyrr sagði eru þrír leikmenn Vals með kórónuveiruna. Snorri segir ástand þeirra nokkuð gott en ljóst sé að þeir fari ekki með til Króatíu.

„Heilsan er bara góð. Einn þeirra með mjög væg einkenni þegar ég talaði við hann í gær en hinir eru fínir, ekki illa haldnir, nema að vera í einangrun sem er þreytt,“ sagði Snorri.

Valsmenn munu standa í ströngu í byrjun næsta mánaðar. Þeir mæta Porec ytra 3. og 4. september og Víkingi í sextán liða úrslitum Coca Cola-bikarsins 9. september. Fjórum dögum síðar fara átta liða úrslitin fara fram og Olís-deildin hefst svo 16. september. Í 1. umferð hennar mætir Valur Gróttu á Seltjarnarnesi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×