Viðskipti innlent

Skortur hrellir drykkjar­vöru­fram­leið­endur

Eiður Þór Árnason skrifar
Það er fátt sem farsóttin lætur ósnert.
Það er fátt sem farsóttin lætur ósnert. Samsett

Alþjóðlegur skortur á áldósum hefur leitt til þess að erfiðara hefur reynst að nálgast ákveðnar drykkjarvörur í verslunum.

Staðan hefur haft áhrif á framleiðendur víða um heim og ekki síst á Ölgerðina og Coca-Cola European Partners á Íslandi, risana tvo á innlendum drykkjarvörumarkaði. Bæði fyrirtækin hafa þurft að hækka verð í sumar til að bregðast við auknum framleiðslukostnaði.

Eins og oft áður má rekja aðfangaskortinn að einhverjum hluta til heimsfaraldursins sem hefur raskað fjölda framleiðslugreina með því að ýta undir djúpar sveiflur í eftirspurn.

Auka framboð á litlum plastflöskum

„Ölgerðin er á sama báti og fyrirtæki út um heim allan. Covid hefur um margra mánaða skeið haft þau áhrif að veitinga- og skemmtistaðir hafa lokað og það hefur leitt til þess að neysla á drykkjum hefur í vaxandi mæli færst yfir í dósir,“ segir Gunnar B. Sigurgeirsson, aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar í skriflegu svari.

Ölgerðin, sem framleiðir meðal annars vörur undir merkjum Pepsi og Kristals, hefur til að mynda brugðist við þessu með því að auka framboð á litlum 33cl plastflöskum. Vegna dósaskortsins hafa ákveðnar vörur verið ófáanlegar í dósum í takmarkaðan tíma, þar á meðal Kristall Mexican Lime og Guinness-bjór.

Ætti að duga fram að áramótum

Coca-Cola European Partners á Íslandi hefur ekki síður fundið fyrir þrengingum á þessum markaði.

„Það er orðið dýrara og erfiðara að fá dósir. Við erum í ágætismálum eins og er en við vitum ekki hvernig þetta mun þróast inn í næsta ár,“ segir Stefán Magnússon, markaðsstjóri fyrirtækisins.

„Miðað við söluáætlanir þá ætti þetta nokkurn veginn að ganga upp hjá okkur fram að áramótum en við heyrum að þetta verði svona eitthvað áfram. Þetta er ekki eitthvað sem leysist á þessu ári,“ bætir Stefán við.

Gunnar hjá Ölgerðinni, tekur undir þetta og segir að framtíðin sé óljós hvað þetta varðar. Fyrirtækið vonast þó til að ástandið lagist hið fyrsta.

Álverðshækkanir sett strik í reikninginn

Miklar hækkanir hafa verið á heimsmarkaðsverði á áli síðastliðið ár en það tók mikla dýfu snemma í faraldrinum. Það fór lægst í 1.461 Bandaríkjadali á tonnið í maí en er nú komið yfir 2.600 dali. Það hefur ekki verið hærra frá árinu 2011.

Þetta helst í hendur við að framleiðslukostnaður á drykkjarvörum í dósum fer hækkandi.

„Ölgerðin hækkaði verð á nokkrum vörunúmerum í sumarbyrjun, en fyrirtækið hefur gert allt til að halda aftur af hækkunum sem verða ytra,“ segir Gunnar.

Stefán segir að þróunin hafi meðal annars leitt til þess að Coca-Cola á Íslandi hafi þurft að hækka verð á drykkjum í dósum hlutfallsega meira en aðrar vörur. Dósir sem eru seldar hér á landi undir vörumerkjum Coca-Cola, á borð við Coke, Fanta og Sprite, eru fluttar inn frá Svíþjóð en fyrirtækið framleiðir dósabjór merktan Víking, Einstök og Thule í bruggsmiðju sinni á Akureyri.


Tengdar fréttir

Sænskt lindarvatn í Toppdósunum

Þrátt fyrir að það sé ekki tiltekið á umbúðunum eða pakkningunni er Toppur í dós framleiddur og fluttur inn frá Svíþjóð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×