Handbolti

Fór í kyn­leið­réttingu og er nú kominn á at­vinnu­manna­samning hjá karla­liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Loui Sand, þá Louise Sand skorar hér fyrir sænska kvennalandsliðið í handbolta.
Loui Sand, þá Louise Sand skorar hér fyrir sænska kvennalandsliðið í handbolta. EPA-EFE/EDDY LEMAISTRE

Loui Sand, áður Louise Sand, hefur fengið samning hjá sænska handboltaliðinu Kärra HF.

Vísir fjallaði um það þegar, þá handboltakonan Louise Sand, lagði handboltaskóna á hilluna árið 2019 og fór í kynleiðréttingu. Hann var þá að spila með franska félaginu Fleury.

Loui Sand fær nú tækifæri til að spila handbolta á ný sem eru frábærar og sögulegar fréttir. Loui Sand fékk atvinnumannsamning hjá karlaliði Kärra HF og getur því haldið áfram að stunda íþróttina sem hann elskar.

„Þetta er sönnun þess að það er mögulegt fyrir transfólk að taka þátt í íþróttum,“ sagði hann við Sportbladet í Svíþjóð.

Loui var karlmaður fæddur í kvenmannslíkama en ákvað fyrir tveimur árum að stíga skrefið og fara í kynleiðréttingu.

„Mér líður frábærlega. Fór frá því að leggja handboltaskóna skyndilega á hilluna í að finna leiðina aftur til baka í rólegheitunum. Mér hefur sjaldan fundist ég vera jafnmikið lifandi,“ sagði Loui Sand.

Hann segist aldrei hafa getað ímyndað sér þetta fyrir þremur árum síðan. „Algjörlega ekki. Aldrei, aldrei, aldrei. Þetta er staðfesting fyrir mig sjálfan. Ég fæ að berjast aftur inn á handboltavellinum og fæ borgað fyrir það,“ sagði Sand.

Síðasti formlegi handboltaleikur hans var árið 2018. Það hefur tekið sinn tíma líkamlega að komast á þennan stað.

„Ég hef einhvern veginn orðið sterkari á ferðalagi mínu og þori meiri inn á handboltavellinum. Mín staða er vinstra megin en ég hef verið að spila í mörgum stöðum. Ég spila bara þar sem þjálfarinn minn vill að ég spili,“ sagði Sand.

Sand er 28 ára gamall og verður fyrsti transmaðurinn til að spila í karlahandboltanum í Svíþjóð.

„Ég hef aldrei lagt svona mikið á líkamann minn. Þetta er enn nýr líkami fyrir mig og ég er að kynnast honum betur,“ sagði Sand spenntur fyrir framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×