Körfubolti

Bandaríkjamenn búnir að finna fjölina sína og aðeins einum sigri frá fjórða gullinu í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Durant getur unnið sína þriðju gullmedalíu á Ólympíuleikunum.
Kevin Durant getur unnið sína þriðju gullmedalíu á Ólympíuleikunum. getty/Kevin C. Cox

Bandaríska karlalandsliðið í körfubolta er komið í úrslit á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir sigur á Ástralíu, 97-78.

Bandaríkin eru nú aðeins einum sigri frá fjórðu gullverðlaunum á Ólympíuleikunum í röð. Í úrslitaleiknum mæta Bandaríkjamenn annað hvort Frökkum eða Slóvenum.

Eftir að hafa tapað fyrsta leik sínum á Ólympíuleikunum hefur bandaríska liðið sótt í sig veðrið og unnið fjóra leiki í röð.

Ástralir byrjuðu leikinn mun betur og náði mest fimmtán stiga forskoti í fyrri hálfleik. Bandaríkjamenn enduðu hann hins vegar vel og þegar liðin gengu til búningsherbergja var munurinn aðeins þrjú stig, 42-45.

Bandaríkin gengu svo frá leiknum í 3. leikhluta sem þeir unnu, 32-10. Lítil spenna var í 4. leikhlutanum og Bandaríkjamenn unnu nítján stiga sigur, 97-78.

Kevin Durant og Jrue Holiday voru bestu leikmenn bandaríska liðsins í nótt. Durant skoraði 23 stig og tók níu fráköst og Holiday var með ellefu stig, átta fráköst og átta stoðsendingar og spilaði góða vörn á aðalskorara Ástrala, Patty Mills. Hann endaði með fimmtán stig og átta stoðsendingar en var með slaka skotnýtingu.

Devin Booker skoraði tuttugu stig fyrir Bandaríkin og hitti úr sjö af tíu skotum sínum og Khris Middleton var með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×