Körfubolti

Grindavík berst mikill liðsstyrkur bæði karla- og kvennamegin

Valur Páll Eiríksson skrifar
Grindavík styrkir sig fyrir komandi átök.
Grindavík styrkir sig fyrir komandi átök. Vísir/Bára

Grindavík hefur borist liðsstyrkur fyrir komandi átök í úrvalsdeildum karla og kvenna í körfubolta. Liðið hefur fengið bæði karlkyns og kvenkyns leikmann frá Bandaríkjunum auk þess sem Spánverjinn Ivan Aurrecoechea kemur til liðsins frá Þór á Akureyri.

Grindvíkingar greindu frá því í hádeginu að liðið hefði náð samkomulagi við Bandaríkjamanninn Malik Benlevi um að leika með karlaliði félagsins á komandi leiktíð.

Benlevi er 24 ára gamall framherji og 196 sm að hæð. Hann lék síðast með Salt Lake City Stars í þróunardeild NBA og var áður í Georgia State-háskóla. Hann skoraði 11,9 stig og tók 5,8 fráköst að meðaltali á lokaári sínu í háskólaboltanum.

Þá sömdu Grindvíkingar við spænska miðherjann Ivan Aurrecoechea sem lék með Þór á Akureyri á síðustu leiktíð. Hann er 204 sm að hæð og lék í háskólaboltanum vestanhafs frá 2016 til 2020 áður en hann samdi við Þór síðasta haust.

Hann var með 19,2 stig og 11,1 frákast að meðaltali með Þórsliðinu á síðustu leiktíð.

Kvennaliði félagsins hefur þá einnig borist liðsstyrkur frá Bandaríkjunum þar sem bakvörðurinn Robbi Ryan hefur samið um að leika með liðinu á komandi vetri.

Ryan er einnig 24 ára gömul og lék síðast með háskóla Arizona State. Þar lék hún 131 leik og þykir hún sérstaklega lunkin fyrir utan þriggja stiga línuna. Hún skoraði 10,6 stig að meðaltali í leik á sínu lokaári og var valin í lið ársins í All-Pac-12 deildinni í háskólaboltanum vestanhafs.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×