Körfubolti

Nýja þríeyki Lakers liðsins fær fimmtán milljarða í laun fyrir næsta tímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook lék bara í eitt tímabil með Washington Wizards.
Russell Westbrook lék bara í eitt tímabil með Washington Wizards. AP/Alex Brandon

Russell Westbrook verður leikmaður Los Angeles Lakers 6. ágúst næstkomandi þegar leikmannaskipti Lakers og Washington Wizards geta fyrst gengið í gegn.

Bandaríski fjölmiðlamaðurinn Adrian Wojnarowski á ESPN sagði frá því í gær Westbrook færi til Lakers í skiptum fyrir Kyle Kuzma, Montrezl Harrell og Kentavious Caldwell-Pope.

Þetta þýðir að Westbrook mun spila með þeim LeBron James og Anthony Davis á komandi tímabili í NBA-deildinni.

Westbrook verður 33 ára gamall í nóvember en hann á að baki fjögur tímabil í NBA deildinni með þrennu að meðaltali í leik. Þetta verður samt hans fjórða félag á fjórum árum. Wizards fékk hann í desember í skiptum við Houston Rockets en Russell hafði áður spilað með Oklahoma City Thunder.

Russell var með 22,2 stig, 11,5 fráköst og 11,7 stoðsendingar að meðaltali á sínu eina tímabilið með Wizards liðinu en hann hitti þó bara úr 43,9 prósent skota sinna og aðeins 31,5 prósent skota fyrir utan þriggja stiga línuna.

Westbrook er að koma heim en hann er frá suður Kaliforníu og spilaði með UCLA í háskóla. Hann er sagður áhugasamur um að komast til Los Angeles og þakkaði í gær Washington D.C. fyrir tíma sinn þar.

Westbrook er aftur á móti á engum sultarlaunum. Hann fær 44,2 milljónir dollara fyir 2021-22 tímabilið og 47,1 milljón dollara fyrir tímabilið á eftir. 47,1 milljón dollara eru meira en 5,8 milljarðar í íslenskum krónum.

Það eru fleiri leikmenn vel launaðir hjá Lakers. Koma Westbrook þýðir að nýja þríeyki Lakers liðsins James-Westbrook-Davis fær samtals 121 milljón dollara í laun fyrir næsta tímabil en það eru samanlagt fimmtán milljarðar í íslenskum krónum.

Þessir þrír fá meira samanlagt en nítján NBA lið eru með á launaskrá núna þegar þau reyna að fá til sín menn með lausa samninga.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×