Handbolti

Pink býðst til að borga sekt norska liðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Norska liðið í stuttbuxunum sem það mátti ekki spila í.
Norska liðið í stuttbuxunum sem það mátti ekki spila í. NORSKA HANDKNATTLEIKSSAMBANDIÐ

Norska strandhandboltalandsliðinu hefur borist aðstoð úr óvæntri átt í deilunni við Handknattleikssamband Evrópu, EHF, um klæðnað á mótum.

Norska liðið fékk sekt frá EHF fyrir að spila í stuttbuxum í lokaleik sínum á EM í strandhandbolta kvenna um þarsíðustu helgi. Samkvæmt reglum þurfa konur að spila í bikiníi en í þeim eru nákvæmar lýsingar á því hversu háar bikiníbuxurnar eiga að vera. Á meðan klæðast karlar klæðast hlýrabolum og stuttbuxum.

Fyrir EM óskaði Noregur eftir því að spila í stuttbuxum en var tjáð að fyrir það fengi liðið sekt og því yrði jafnvel hent úr keppni. Norska liðið bakkaði þá en mætti svo til leiks í stuttbuxunum í bronsleiknum gegn Spáni. Fyrir það fékk Noregur samtals 1.500 evra sekt, sem nemur 220 þúsund íslenskum krónum.

Söngkonan vinsæla Pink hefur nú blandað sér í málið. Í færslu á Twitter sagðist hún vera stolt af norska liðinu fyrir að mótmæla reglunum og segir að EHF ætti að fá sekt fyrir karlrembu. Þá bauðst hún til að borga sekt norska liðsins.

EHF skoðar nú hvort breyta eigi reglunum umdeildu um klæðnað kvenna á mótum í strandhandbolta. Það verði gert í samstarfi við Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, en EHF fylgir því að málum.

EHF stefnir að því að auka vinsældir strandhandbolta og segist vera tilbúið að hlusta á allar tillögur sem geti hjálpað til í þeim efnum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.