Handbolti

Kría sendir pillu á Gróttu og Seltjarnarnesbæ - „Ný lið eru ekki velkomin“

Valur Páll Eiríksson skrifar
krían

Handknattleikslið Kríu hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem staðfest er að liðið muni ekki vera á meðal keppnisliða í Olís-deild karla á næsta tímabili, og hefur félagið verið lagt niður. Það er vegna aðstöðuleysis þar sem félagið sendir væna pillu til bæði Gróttu og bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi.

Kría var stofnuð fyrir tveimur árum af leikmönnum sem höfðu leikið saman um árabil í yngri flokkum Gróttu með góðum árangri. Liðið fékk aðstöðu hjá Gróttu undir æfingar sínar og leiki í neðri deildunum.

Liðið náði frábærum árangri í vetur er það vann sér sæti í Olís-deildinni eftir sigur á Víkingi í umspili en í yfirlýsingunni segir að vikurnar eftir að sætið var tryggt hafi verið strembnar.

„Vikurnar eftir að liðið tryggði sæti sitt í deildinni hófu forsvarsmenn liðsins strax vinnu við þátttöku liðsins í Olís-deildinni enda var alltaf stefnan frá upphafi sett á að taka þátt, þrátt fyrir orð ýmissa sófasérfræðinga sem haldið hafa öðru fram síðastliðna daga og í raun frá upphafi,“ segir í yfirlýsingu Kríu.

Uppfært:  Grótta hefur svarað yfirlýsingu Kríu sem sjá má hér.

Sú vinna gekk hins vegar ekki eins vel og vonast var til. Kría fékk ekki þá tíma sem félagið óskaði eftir hjá Gróttu, engin lausn fannst, jafnvel þegar leitað var til Seltjarnarnesbæjar, og leituðu Kríumenn því annað.

„Fyrrum samstarfsfélag okkar, Grótta, sá okkur ekki sem verðugan samstarfsaðila fyrir komandi vetur og töldu kröfu okkar um 2x æfingatíma í viku og 11 heimaleiki yfir 10 mánaða tímabil til of mikils ætlað og þrátt fyrir að við höfum spilað stoltir með merki Seltjarnarness á bringunni þá höfðu bæjaryfirvöld takmarkaðan áhuga á að beita sér í málinu og urðum við því án heimavallar,“

„Forsvarsmenn liðsins létu ekki deigan síga og ræddu við 8 íþróttafélög og ýmis bæjarfélög með það að markmiði að komast að, æfa og verðar fulltrúar þeirra í efstu deild handboltans.“

Hvergi komst Kría að og var ákvörðunin því tekin að draga liðið úr keppni í Olís-deildinni, líkt greint var frá fyrr í vikunni. Liðið verður þá lagt niður þar sem það hefur hvergi aðstöðu. Í tilkynningunni segir að þetta sé öðrum liðum víti til varnaðar.

„Við vonum einnig að Kría verði íþróttahreyfingunni víti til varnaðar. Ný lið í dag eru ekki velkomin, þau raska of miklu og er enginn vettvangur fyrir ný lið að feta sér rúms og ná árangri. Það er okkar von að uppgangur Kríu auðveldi næsta býja liði sem er til í að taka slaginn að komast að.“ segir í tilkynningunni sem má sjá í heild sinni að ofan.

Víkingur frá Reykjavík þykir líklegastur til að taka sæti Kríu í Olís-deildinni en liðið er fremst í röðinni samkvæmt reglum HSÍ eftir að hafa tapað í umspilinu. Næst á eftir koma Þór frá Akureyri og ÍR sem féllu úr Olís-deildinni í vor.

Víkingur var síðast í efstu deild veturinn 2017-18 og féll þá aftur niður á fyrsta ári. Þá hlaut liðið sæti í deildinni við svipaðar aðstæður þegar KR dró lið sitt úr keppni vegna aðstöðumála, rétt eins og Kría nú.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×