Formúla 1

Vettel týndi rusl eftir Silverstone kappaksturinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skilaboð Sebastians Vettel fóru inn um annað og út um hitt hjá áhorfendum á Silverstone. Hann gerði samt sitt til að halda stúkunni hreinni eftir breska kappaksturinn.
Skilaboð Sebastians Vettel fóru inn um annað og út um hitt hjá áhorfendum á Silverstone. Hann gerði samt sitt til að halda stúkunni hreinni eftir breska kappaksturinn. getty/Mark Thompson

Þýski ökuþórinn Sebastian Vettel lét hendur standa fram úr ermum eftir breska kappaksturinn í gær og hjálpaði til við að týna rusl á Silverstone.

Yfir 140 þúsund manns fylgdust með breska kappakstrinum sem fór að venju fram á hinni sögufrægu Silverstone braut. Lewis Hamilton vann umdeildan sigur en þeir Max Verstappen lentu í árekstri á fyrsta hring. Hollendingurinn var afar ósáttur við heimsmeistarann og sakaði hann um vanvirðingu og óíþróttamannslega framkomu.

Vettel gekk ekki vel í breska kappakstrinum og þurfti að hætta eftir fjörutíu hringi. Hann fékk ekkert stig, þriðja kappaksturinn í röð.

Hann lét samt til sín taka eftir kappaksturinn, setti á hanska og hjálpaði til við að týna rusl í stúkunni. Ekki veitti af enda gengu áhorfendur á Silverstone afar illa um.

Vettel er mikill umhverfissinni en fyrir breska kappaksturinn klæddist hann bol þar sem hann hvatti fólk til að ganga vel um og skilja ekki rusl eftir. Þau skilaboð virðast þó ekki hafa komist nógu vel áleiðis.

Vettel, sem ekur nú fyrir Aston Martin, varð heimsmeistari fjögur ár í röð (2010-13) þegar hann keppti fyrir Red Bull. Hann hefur unnið 53 kappakstra á ferlinum. Aðeins Lewis Hamilton (99) og Michael Schumacher (91) hafa unnið fleiri keppnir í sögu Formúlu 1.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.