Viðskipti innlent

Bíla­­leigu­bílar þre­faldast í verði: „Þetta er bara lög­­málið um fram­­boð og eftir­­­spurn“

Eiður Þór Árnason skrifar
Ferðaþjónustuaðilar hafa áhyggjur af því að ástandið komi í veg fyrir að ferðamenn dreifist betur um landið. Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri Hertz, segir verðhækkanir eðlilegar.
Ferðaþjónustuaðilar hafa áhyggjur af því að ástandið komi í veg fyrir að ferðamenn dreifist betur um landið. Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri Hertz, segir verðhækkanir eðlilegar. Samsett

Dæmi eru um verð á bílaleigubílum hafi meira en þrefaldast frá því í desember en fjölmargir ferðamenn hafa gripið í tómt undanfarna daga. Mikil umframeftirspurn er eftir bílaleigubílum og er útlit fyrir að bílaleigur verði nærri uppseldar fram í ágúst.

Túristi hefur fylgst með verðþróun á bílaleigubílum frá því í desember og leiðir samanburðurinn í ljós heldur snarpar hækkanir.

Þann 18. desember var hægt að leigja smábíl dagana 1. til 8. ágúst fyrir 93.700 krónur hjá bílaleigunni Hertz en síðasta sunnudag var verð á svipuðum bíl komið í 303.700 krónur. Er um að ræða 324 prósenta hækkun á tæplega sjö mánaða tímabili en á sama tíma hækkaði verð á jepplingi hjá Bluecar um 230 prósent. Minnsta verðhækkunin sést hjá Avis þar sem gjald fyrir smábíl jókst um 151 prósent.

Túristi skoðaði verð hjá fimm bílaleigum, annars vegar á ódýrasta smábílnum sem var í boði og hins vegar ódýrasta jepplingnum. Í öllum tilvikum er um að ræða verð fyrir leigu á tímabilinu 1. til 8. ágúst en nánari umfjöllun má finna á vef Túrista.

Ferðamenn sem þurfa að bóka bíl með skemmri fyrirvara stendur svo til boða að leigja jeppling hjá Sixt dagana 21. til 28. júlí á tæpar 783 þúsund krónur. 

Hluti þeirra bíla sem stendur fólki til boða dagana 21. til 28. júlí á vefsíðunni Rentalcars.com. Skjáskot

Ekki einsdæmi í heiminum

Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri Hertz, staðfestir að mikið sé að gera hjá bílaleigum og dæmi um að einstaka dagar séu uppseldir.

„Þetta er ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar í heiminum þar sem bílaleigur seldu mikið af flotanum í faraldrinum og svo hefur reynst erfiðara að fá nýja bíla. Svo fór þetta hraðar af stað held ég en menn reiknuðu með og framboðið er bara minna en sem nemur eftirspurn.“

Það er ekki vænlegt til árangurs þessa dagana að reyna að tryggja sér bílaleigubíl samdægurs.Vísir/vilhelm

Sigfús horfir fram á að ástandið fari að skána hér á landi í lok ágúst þegar hægjast fer á ferðamannastraumnum.

„Það sem hefur breyst undanfarin ár er að fólk er að bóka bílaleigubílana mjög seint í ferlinu og fer ekki að hugsa um þá fyrr en búið er að bóka flug og gistingu.“

Bókanir komi því seint inn þessa dagana og af meiri þunga en gert var ráð fyrir.

Hin sígilda spurning um framboð og eftirspurn

Sigfús segir að Hertz hafi minnkað bílaflota sinn um 20 prósent eftir að faraldurinn skall á sem sé ívið meira en yfir hefðbundinn vetur. Hann segir stöðuna á markaðnum skýra umræddar verðhækkanir.

„Þetta er bara lögmálið um framboð og eftirspurn. Síðustu sætin í flugvélinni seljast hugsanlega á töluvert hærra verði og eins með síðasta hótelherbergið og bílaleigubílinn.“

Það sé gleðiefni að aftur sé farið að lifna yfir ferðaþjónustunni.

Verð á bílaleigubílum sveiflast mikið eftir framboði, eftirspurn og árstíðum. Það er aldrei fjallað um það þegar bílaleigubílar kosta tvö þúsund krónur á dag og eru ódýrari en leiga á hjólbörum.

Sigfús segir að samkeppni hafi alltaf verið hörð á bílaleigumarkaði og yfirleitt meiri en í öðrum ferðaþjónustugeirum.

Aðspurður um vöxt fyrirtækja á borð við CarRenters sem hafi milligöngu um útleigu einkabíla segir hann að það sé gott mál ef þau geti annað hluta eftirspurnarinnar.

„En eins og ég hef sagt áður þá er það ábyrgðarhluti að leigja út bíl, hann þarf af vera rétt tryggður, skoðaður og í góðu lagi. Ef það er staðið vel að því þá er þetta bara hið besta mál og fínt í flóruna,“ segir Sigfús.

Enn hægt að finna bíla á eðlilegu verði

„Í þessum bransa eins og öðrum þá ræður framboð og eftirspurn verðinu að miklu leyti þannig að þegar framboð á bílum minnkar eins og það er að gerast núna af ýmsum ástæðum þá náttúrulega hækkar verðið líka,“ sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í Reykjavík síðdegis í gær.

Hann tekur ekki undir það að verð hjá bílaleigunum séu komin langt fram úr hófi. Stutt athugun hans hafi leitt í ljós að enn mætti finna smábíla í ágúst á 70 til 150 þúsund krónur fyrir vikuna, sem væri ekki óeðlilegt verð í núverandi ástandi. 

En ég er ekki að loka á að það hafi orðið töluverð verðsprenging hjá einhverjum.

Hlusta má á viðtalið við Jóhannes í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. 


Tengdar fréttir

Hvetur fólk til að fórna ­bílnum sínum í þágu ferða­þjónustunnar

Örtröð hefur myndast á Keflavíkurflugvelli síðustu daga og greinilegt að aukið líf er nú að færast í ferðaþjónustuna. Nú er svo komið að bílaleigur eiga í stökustu vandræðum með að anna eftirspurn en að sögn Samtaka ferðaþjónustunnar eru bílaleigubílar nánast uppseldir á Íslandi út ágústmánuð.

Sjö­falt fleiri brott­farir er­lendra far­þega

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 42.600 í nýliðnum júnímánuði eða sjö sinnum fleiri en í júní 2020, þegar brottfarir voru um sex þúsund.

Ljónheppinn að fá bílaleigubíl

Örtröð hefur verið á Keflavíkurflugvelli undanfarna daga, bæði við komuna til landsins og einnig í röðinni á leiðinni út. Í dag fóru tæplega 100 flugvélar um völlinn. Þrátt fyrir að bið geti verið nokkur við komuna til landsins báru ferðamenn sem fréttastofa ræddi við í dag öllum aðbúnaði á flugvellinum vel söguna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×