Skoðun

Hvar er afsökunarbeiðnin, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir?

Magnús D. Norðdahl skrifar

Að kunna að biðjast afsökunar er eiginleiki sem talinn er virðingarverður í siðmenntuðu samfélagi. Fólk sem er öruggt í eigin skinni gengst iðulega við mistökum sínum og biður hlutaðeigandi aðila afsökunar. Þetta er talið svo mikilvægt að reynt er að kenna börnum þessa háttsemi strax á unga aldri.

Skortur á afsökunarbeiðni ber hins vegar vott um óöryggi, kaldlyndi og sinnuleysi gagnvart þeim aðilum sem brotið var á.

Eins og flestum er kunnugt um vísaði Útlendingastofnun hælisleitendum á götuna án húsnæðis og fæðis fyrr á þessu ári. Hælisleitendur eru einn viðkvæmasti hópur okkar samfélags og hluti þeirra sem enduðu á götunni áttu í engin hús að venda. Einn þessara aðila gisti á götum Reykjavíkurborgar kalda frostnótt í mars síðastliðnum áður en góðhjartaðir meðborgarar komu honum til hjálpar. Talsmaður Útlendingastofnunar Þorsteinn Gunnarsson kom fram í fjölmiðlum og varði hátterni stofnunarinnar og sama gerði dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þegar hún var spurð um málið á Alþingi.

Umrædd háttsemi stofnunarinnar hefur nú verið úrskurðuð ólögmæt af kærunefnd útlendingamála. Eftir sem áður hefur enginn þeirra sem tjáði sig um málið af hálfu stjórnvalda stigið fram og beðist afsökunar. Þögnin er vopn þeirra sem engar varnir hafa. Aðferðafræðin er alþekkt og gengur út að almenningur og fjölmiðlar gleymi hratt og snúi sér að öðrum málum.

Á sama tíma og dómsmálaráðherra þegir þunnu hljóði í þessu máli fannst henni viðeigandi að krefja lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um afsökunarbeiðni í tengslum við Ásmundarsalsmálið. Tvískinnungur ráðherra liggur í augum uppi.

Ég skora á Þorstein Gunnarsson talsmann Útlendingastofnunar og dómsmálaráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem fer fyrir málaflokknum, að stíga fram og biðjast afsökunar vegna þeirrar ólögmætu og ómannúðlegu háttsemi sem hælisleitendum var sýnd. Þá skora ég á okkur hin að halda þessari kröfu til streitu þar til þau gefa sig og haga sér í samræmi við reglur og viðmið siðmenntaðs samfélags.

Höfundur er lögmaður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Samgönguáskorun

Sigurður Ingi Friðleifsson,Guðmundur Haukur Sigurðsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.