Körfubolti

„Það sem hann gerði í dag var óraunverulegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Khris Middleton verðskuldaði spaðafimmu og vel það frá Giannis Antetokounmpo eftir sigurinn í nótt.
Khris Middleton verðskuldaði spaðafimmu og vel það frá Giannis Antetokounmpo eftir sigurinn í nótt. AP/Curtis Compton

Milwaukee Bucks náðu í nótt 2-1 forystu í úrslitaeinvígi austurdeildar NBA-deildarinnar með 113-102 sigri gegn Atlanta Hawks. Khris Middleton átti risastóran þátt í sigrinum og skoraði fleiri stig en Atlanta í fjórða leikhlutanum.

Í frekar jöfnum leik, þar sem Milwaukee var reyndar undir stærstan hluta leiksins, gerði Middleton gæfumuninn. Liðsfélagar hans virtust alltaf geta leitað til hans, sérstaklega í lokaleikhlutanum, en Middleton skoraði þá 20 af 38 stigum sínum. Hann hefur aldrei skorað svo mörg stig í úrslitakeppni.

Atlanta var 85-83 yfir þegar fjórði leikhluti hófst en liðið skoraði aðeins 17 stig í honum, eða þremur minna en Middleton einn fyrir Milwaukee.

„Það sem hann gerði í dag var óraunverulegt,“ sagði Giannis Antetokounmpo um Middleton. Grikkinn er vanur því að vera aðalstjarna Milwaukee, og skoraði 33 stig og tók 11 fráköst, en var ekkert að spara stóryrðin varðandi frammistöðu Middleton:

„Hann var ótrúlegur. Hann bar liðið áfram allt til enda. Það sem ég sá í dag var fullkomið. Svo einfalt er það,“ sagði Antetokounmpo.

Young steig á dómara

Atlanta byrjaði leikinn af krafti eftir að hafa verið undir allan leikinn í leik númer tvö, sem Milwaukee vann 125-91. Milwaukee lenti strax 7-0 undir og náði ekki forystunni í fyrsta sinn fyrr en í stöðunni 82-80, þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta, en náði svo góðum tökum undir forystu Middletons eins og fyrr segir.

Trae Young skoraði 35 stig fyrir Atlanta en steig ofan á fót dómara seint í þriðja leikhluta og meiddist í ökkla. Hann fer í skoðun í dag til að meta alvarleika meiðslanna.

Liðin mætast að nýju í Atlanta á þriðjudagskvöld en vinna þarf fjóra leiki til að komast í úrslitaeinvígið um NBA-meistaratitilinn, við annað hvort Phoenix Suns eða LA Clippers. Þau lið mætast í einvígi sem gæti klárast í nótt því Phoenix er 3-1 yfir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×