Heimsmarkmiðin

Stríð fullorðinna sviptu milljónir barna bernskunni

Heimsljós

Rúmlega 8,400 börn voru ýmist myrt eða örkumluðust í stríðsátökum í Afganistan, Sýrlandi, Jemen og Sómalíu. Þá voru rúmlega sjö þúsund börn skráð í herdeildir.

Brotið var alvarlega á tæplega tuttugu þúsund börnum á síðasta ári í tengslum við vopnuð átök. Heimsfaraldur kórónuveiru leiddi til þess að erfiðara var en áður að ná til barnanna, að því er fram kemur í árlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um börn og vopnuð átök. Meðal alvarlegra brota má nefna nauðganir og þvingun barna til þátttöku í hermennsku.

Yfirskrift skýrslunnar er „Glötuð æska“ og í undirtitli er vísað til aukins varnarleysis stelpna og stráka í vopnuðum átökum á tímum heimsfaraldurs COVID-19. Í skýrslunni segir að alvarleg skráð brot gegn börnum séu áfram óhugnanlega mörg eða 26,500 og heimsfaraldurinn hafi aukið vararleysi barna gagnvart brottnámi, þvingun í hermennsku og kynferðisofbeldi, auk þess sem fjölgun hafi orðið á árásum á skóla og sjúkrahús.

„Stríð fullorðinna sviptu milljónir barna bernsku sinni á árinu 2020,“ segir Virginia Gamba, sérlegur erindreki aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í þessum málaflokki. Rúmlega 8,400 börn voru ýmist myrt eða örkumluðust í stríðsátökum í Afganistan, Sýrlandi, Jemen og Sómalíu. Þá voru rúmlega sjö þúsund börn skráð í herdeildir og notuð í stríðsátökum, einkum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Sómalíu, Sýrlandi og Mjanmar.

Mesta fjölgunin í brotum gegn börnum í stríði milli ára var brottnám. Börnum sem voru numin brott fjölgaði um 90 prósent milli ára og börn sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi, meðal annars nauðgunum, fjölgaði um 70 prósent. Af árásum á skóla beindust margar þeirra gegn menntun stúlkna auk þess sem vígahópar lögðu undir sig marga skóla – sem voru lokaðir vegna COVID-19 – og gerðu að herstöðum.

Þrátt fyrir skelfilegar tölur í skýrslunni er einnig sagt frá áþreifanlegum framförum í samtölum sérfræðinga á sviði barnaverndar í viðræðum við stríðandi fylkingar í Afganistan, Mið-Afríkuríkinu, Nígeríu, Filippseyjum, Suður-Súdan og Sýrlandi. „Á síðasta ári tókst að semja um tæplega 35 nýjar skuldbindingar eða aðra þátttöku um aðgerðir til að vernda börn betur, þar á meðal tvær nýjar aðgerðaráætlanir sem skrifað var undir í Mjanmar og Suður-Súdan. Auk þess tókst með samningaviðræðum við vígahópa að fá þá til að gefa 12.643 börnum frelsi á ný.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.


×