Atvinnulíf

Stjórnarkonur ósáttar: Karlaklíkur útiloka konur í forstjórastólinn

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Ásta Dís Óladóttir dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Ásta Dís Óladóttir dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Vísir/Vilhelm

Stjórnarkonur í skráðum félögum á Íslandi telja ráðningaferli í forstjórastól oft útilokandi fyrir konur. Þær kalla stjórnir í heild sinni til ábyrgðar. Þá telja margar ráðningaferlin oft meingölluð. Það eigi einnig við um ráðningar þar sem leitað er til fagaðila. Þetta og fleira kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem birtar eru í dag og meira en helmingur stjórnarkvenna í skráðum félögum á Íslandi tók þátt í.

„Konur sem sitja í stjórnum skráðra félaga telja margar hverjar að ráðningarferlin séu of lokuð, ógagnsæ og óformleg, að þau væru í raun útilokandi fyrir konur,“ segir Ásta Dís Óladóttir dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands meðal annars um niðurstöðurnar.

„Þær kalla stjórnir sem heild til ábyrgðar og telja nauðsyn á faglegri vinnubrögðum við ráðningar, bættum stjórnarháttum og meiri áherslu á að vinna stöðugt að þjálfun og framgangi bæði kvenna og karla innan félaganna,“ segir Ásta Dís.

Karlaklíkur og gamaldags viðhorf

Í dag birtist grein í Stjórnmál og stjórnsýslu undir yfirskriftinni ,,Forstjóraráðningar í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum: Kynjahalli, útilokun og ófagleg ráðningaferli?“ 

Höfundar greinarinnar, auk Ástu Dísar, eru Þóra H. Christiansen, Erla S. Kristjánsdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Forsaga rannsóknarinnar er niðurstaða annarrar rannsóknar sem Ásta Dís, Þóra og Gylfi Dalmann Aðalsteinsson stóðu að árið 2019. Þar kom fram að áhrifakonur í íslensku viðskiptalífi hafa gagnrýnt ráðningaferli forstjóra skráðra félaga fyrir það að vera ófagleg.

„Þær telja að karlaklíka útiloki konur frá því að hljóta brautargengi í stöður forstjóra, að gamaldags viðhorf og staðalmyndir komi í veg fyrir að stjórnir geti séð konur fyrir sér í hlutverki forstjóra. Þá vanmeti konur sjálfar sig og sækist síður eftir áhrifastöðum,“ segir Ásta Dís.

Í rannsókninni sem nú var gerð, var því reynt að greina ástæður þess að staðan er eins og hún er og þá hverjar skýringarnar eru á því að þrátt fyrir fjölgun kvenna í stjórnum skráðra félaga, fjölgar ekki konum í forstjórastól.

Sem þó hefur gerst sums staðar.

Til dæmis segir Ásta Dís niðurstöður í Bandaríkjunum benda til þess að fjölgun áhrifamikilla kvenna í stjórnum geti greitt leið kvenna í forstjórastólinn.

Í Noregi hefur það hins vegar ekki gerst, ekkert frekar en á Íslandi.

Staðan í forstjóraleiknum 19:0

Þau fyrirtæki sem teljast þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki samkvæmt rannsókninni, eru félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Í dag eru þau nítján talsins en á þeim rúmum 35 árum sem liðin eru frá því að fyrsta félagið var skráð á markað á Íslandi, hafa einungis þrjár konur gegnt stöðu forstjóra og engin frá árinu 2016. Þetta eru þær Sigrún Ólafsdóttir, fyrrverandi forstjóri VÍS, Hildur Petersen, fyrrverandi forstjóri Hans Petersen og Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri FL Group.

„Nú er staða kynjanna í forstjórastólaleik skráðra félaga 19-0 körlum í vil. Þá eru konur 22% framkvæmdastjóra/forstjóra á einkamarkaði,“ segir Ásta Dís og bendir á að mögulega muni þetta breytast á næstu vikum og mánuðum.

„1. júlí 2021 taka nýjar leiðbeiningar gildi þar sem í fyrsta sinn er kveðið á um að stjórnir skuli setja stefnu um fjölbreytileika í tengslum við stjórn, framkvæmdastjórn og æðstu stjórnendur.“

Þátttakendur í rannsókninni voru 22 stjórnarkonur í skráðum félögum.

„Þessi rannsókn beinir sjónum að konum sem sitja í stjórnum skráðra félaga hér á landi með það að markmiði að öðlast innsýn í hver þáttur þeirra er í ráðningarferli forstjóra og hver þeirra sýn er á hvers vegna fjölgun kvenna í stjórnum félaganna hefur ekki haft í för með sér þá fjölgun kvenna í forstjórastöðum sem búist var við,“ segir Ásta Dís.

Ásta Dís segir að þegar rýnt er í niðurstöður þurfi þó að hafa í huga að hér er eingöngu verið að ræða við konur um þeirra upplifun af ráðningaferlunum og því ekki hægt að alhæfa neitt út frá niðurstöðunum.

„En þær veita ákveðna innsýn í stöðuna í dag.“

Ráðningaferlið útilokar konur í forstjórastól

Eins og áður segir, sýna megin niðurstöður rannsóknarinnar að stjórnarkonur í skráðum félögum telja margar að ráðningaferlin séu of lokuð, ógagnsæ og óformleg.

„Í raun upplifa stjórnarkonurnar ráðningaferlin útilokandi fyrir konur,“ segir Ásta Dís.

En hvernig?

Margar telja helstu ástæðuna vera að ráðningarferlið útiloki konur, karlarnir sem sitja með þeim í stjórnum séu ekki allir tilbúnir til að gefa konum möguleika og ákvarðanir um ráðningar séu ræddar utan stjórnarfunda þar sem tengslanet karla gegnir stóru hlutverki,“ 

segir Ásta Dís.

„Þær benda einnig á að karlarnir séu leystir undan ábyrgð á því að leiðrétta kynjahallann, þó það séu í raun þeir sem taki ákvarðanirnar, oft utan stjórnarherbergisins.“

Þá kemur fram í niðurstöðum að oft séu stjórnarkonur í skráðum félögum notaðar í forsvari forstjóraráðninga í ferlinu, sem nokkurs konar yfirvarp.

„Nokkrum viðmælendum hefur til dæmis verið falið að stýra ráðningarferlum og tryggja fagleg vinnubrögð. En þrátt fyrir þetta upplifa sumar það jafnvel sem nokkurs konar yfirvarp sem svo er notað til að réttlæta ráðningu karla frekar en kvenna.“

Ásta Dís segir skýr skilaboð í niðurstöðum um að viðmælendur vilja umbætur. Þá sérstaklega að ráðningaferlin séu opnari, faglegri og betur til þess vandað að tryggja að hæfasti einstaklingurinn verði fyrir valinu.

Þó gætir ákveðinni þversögn.

„Athyglisverð togstreita kemur hins vegar fram í lýsingum þeirra. Þegar þær lýsa þeim forstjóraráðningum sem þær hafa sjálfar tekið þátt í þá draga þær flestar fyrst upp mynd af hefðbundnu ferli þar sem vandað er til verka, leitað til fagaðila og vel ígrundaðar ákvarðanir teknar um val umsækjenda,“ segir Ásta Dís og bætir við: 

Hins vegar, þegar talið síðar berst að því hvers vegna kynjahlutfallið í áhrifastöðum er svo bjagað, þá draga þær upp mun dekkri mynd af ráðningarferli sem er útilokandi fyrir konur. 

Karlar taka flestar ákvarðanir, aðgengi kvenna að ráðningarferlinu er takmarkað og þær eru frekar dæmdar úr leik eftir að ferlið er hafið.“

Þá benda niðurstöðurnar til þess að stjórnarkonur í skráðum félögum upplifi sig of vanmáttugar til að ná í gegn þeim breytingum sem þær telja nauðsynlegar.

„Þær eru meðvitaðar um þá ábyrgð sem lögð hefur verið á herðar þeim, að leiðrétta kynjahallann í áhrifastöðum félaganna og þó að margar þeirra sitji í fleiri en einni stjórn og myndu því flokkast sem áhrifamiklar hefur þeim ekki tekist að hafa þau áhrif að ráða konur í forstjórastöður.“

Kynjakvóti á stjórnir félaga var innleiddur árið 2010 með lögum og hafa þau haft umtalsverð áhrif á kynjasamsetningu stjórna félaga. Þegar lögin voru sett var hlutfall kvenna í stjórnum almenningshlutafélaga á Íslandi 16% en fór í 48% árið 2013, þegar lögin voru að fullu innleidd. Þrátt fyrir að hlutfall kvenna hafi ekki aftur náð sömu hæðum og árið 2013, hafa þau samt náð tilgangi sínum og í mars 2021 voru stjórnarmenn hinna 19 skráðu félaga 97 talsins, þar af eru konur 46,5%. Karlmenn eru stjórnarformenn í öllum stjórnum nema einni og konur eru varaformenn tíu stjórna. Þetta þýðir að í átta þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum eru karlar í öllum helstu hlutverkum, þ.e. forstjórar, stjórnarformenn og varaformenn.Vísir/Hanna Andrésdóttir

Fagaðilar gagnrýndir

Að sögn Ástu Dísar koma þau skilaboð fram í niðurstöðum að mörgum stjórnarkonum finnst þurfa að vanda ferlið mun betur.

Viðmælendur bentu margar hverjar á stóra galla á ráðningarferlum, jafnvel þótt leitað sé til fagaðila. Þetta eru lokuð ferli, þar sem stuðst er við nafnalista frá stjórnarmeðlimum og ráðningafyrirtækjum og gagnrýni margra stjórnarkvenna voru hversu fáar konur voru að jafnaði nefndar. 

Það kom fram í máli nokkurra viðmælenda að þær hafi þurft að ganga hart eftir því að ráðgjafar legðu fram lista þar sem jafnvægi væri milli karla og kvenna. Það kæmi fyrir að stundum væru engar konur á listum ráðgjafa. 

Viðmælendur bentu á að með þessu væru ráðningafyrirtækin og þeir sem sinna stjórnendaleit ekki að standa sig í því að veita umbeðna þjónustu,“ 

segir Ásta Dís.

Þá nefndu nokkrar að þeim þætti ráðgjafar ráðningastofa jafnvel hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu um ráðningu.

Sem Ásta Dís segir ríma við ábendingar ýmissa fræðimanna um að huga þurfi að áhrifum þeirra sem veita ráðgjafaþjónustu í stjórnendaleit.

Þá eru skiptar skoðanir á því hvort auglýsa eigi forstjórastörf og aðrar lausar stjórnendastöður. Hættan sé þó sú að þegar ekki er auglýst, eru meiri líkur á að verðugir einstaklingar sæki um starfið.

„Þá voru skýr skilaboð um að hugsa þurfi ferlið víðara. Hvaðan koma forstjórar? Þó að sumir virðist skipta um stóla á milli fyrirtækja, þá hafa einhverjir unnið sig upp í fyrirtækjum og atvinnulífið þarf að hugsa til þess hvernig framkvæmdastjórn fyrirtækja er samsett, þangað þarf fleiri konur, við erum enn með skráð félög þar sem engin kona er í framkvæmdastjórn,“ segir Ásta Dís.

Hvað ef forstjórinn fer fyrir strætó?

Ásta Dís hefur þegar bent á leiðir til að leysa úr kynjahalla í forstjóra- og æðstu stjórnendastöðum stærri fyrirtækja.

Þær leiðir sem hún bendir á eru þrjár.

„Að sett verði kynjakvótalög af stjórnvöldum á framkvæmdastjórnir félaga, að stærstu fjárfestarnir, þar með taldir lífeyrissjóðirnir, setji ákvæði um jöfnun kynjahlutfalla í eigendastefnu sína og að stjórnir geti mótað sér stefnu um jafnrétti innan fyrirtækja,“ segir Ásta Dís.

„Lykilábending hér að hugsa um þetta sem stöðugt ferli sem alltaf sé í skoðun, ekki bara hlaupið til þegar forstjórinn eða lykilstjórnendur eru að fara. Það er mikilvægt að vera með stefnu um það hver geti mögulega tekið við starfinu, arftakastjórnun og virka leiðtogaþjálfun innan fyrirtækja. Þá þarf að huga að fjölbreytileika á öllum sviðum og að stjórn og stjórnendur taki ábyrgð á jöfnun kynjahlutfalla með því að þjálfa upp fólk af öllum kynjum,“ segir Ásta Dís og bætir við: „Hvað ef forstjórinn verður fyrir strætó á morgun? Hver á að taka við? Þetta þarf að vera hluti af stefnu fyrirtækja, að vera með mögulega arftaka á radarnum og það þarf að þjálfa fólk upp. Við erum hins vegar oft feimin við að ræða svona hluti, það eru ekki allir tilbúnir að benda á aðila sem geti tekið við af þeim en það þarf að innleiða slíka hugsun, hver er mögulegur kandídat í stól forstjóra, í stól fjármálastjóra og svo framvegis. Þetta er hugsunarháttur sem við þurfum að innleiða í mun meiri mæli hér á landi“

Ásta Dís segist sammála þeim viðmælendum í rannsókninni sem bentu á að innan fyrirtækja ætti helst að teikna upp box fyrir allar stóru stöðurnar innan fyrirtækja.

„Finna aðila sem gætu verið mögulegir arftakar, kannski ekki strax en á næstu árum. Ef viðkomandi sem mögulega gæti tekið við er ekki alveg með nógu mikla reynslu í dag, þá er hægt að þjálfa viðkomandi upp. Það er enginn að tala um að henda einhverjum út með þessu og fólk á ekki að vera feimið að ræða þetta,“ segir Ásta Dís.

Með þessu getur stjórn verið með mögulegan arftaka forstjóra og forstjórinn gæti einnig teiknað upp hverjir gætu mögulega verið arftakar fyrir allar lykilstöður.

„Einn viðmælandi okkar benti á að „ef þetta er gert þá er fyrirtækið viðbúið því að takast á við skyndilegt brotthvarf forstjóra og þá koma ekki upp þessar íslensku krísur út af einhverju.“

Þá kom fram hjá viðmælendum að jafnrétti er ákvörðun og fyrst og fremst þurfi stjórnir félaga því að hafa til að bera hugrekki og vilann til að breyta.

Ekki megi líta á það sem of áhættusamt að velja konu í stól forstjóra.

„Þær bentu á að ef um reynsluleysi kvenna er að ræða, sé hægt að ráða bót á því innan félaganna sjálfra ef viljinn er fyrir hendi en til þess þarf stöðuga skoðun og markvissa stefnu, jafnrétti er ákvörðun,“ segir Ásta Dís.

Uppfært 23.06: Í upprunalegri útgáfu var sagt að aðeins tvær konur hefðu gegnt forstjórastarfi í félagi sem skráð hefði verið á markað, þær Sigrún Ólafsdóttir fyrrverandi forstjóri VÍS og Hildur Petersen, fyrrverandi forstjóri Hans Petersen. Þetta er rangt því þriðja konan sem gegnt hefur forstjórastarfi í skráðu félagi er Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri FL Group. Nafni hennar hefur nú verið bætt við í umfjöllun.


Tengdar fréttir

Konur taka við af konum sem framkvæmdastjórar

Konur eru líklegri til að taka við konum sem framkvæmdastjórar en þróunin er hæg segir Brynja Baldursdóttir meðal annars í viðtali um greiningu Creditinfo á kynjahlutföllum stjórnenda í Framúrskarandi fyrirtækjum.

Konur sem berjast fyrir jafnrétti verða oft fyrir aðkasti

„Ég vona að lagasetningin sé innlegg í þá viðhorfbreytingu sem byggir á að konur geti tekið þátt í kynferðislegri háttsemi án þess að eiga á hætti að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Það er ekki bara áfall og kostnaður fyrir einstaklinga sem fyrir slíku verða, heldur samfélagið og þannig atvinnulífið,” segir María Bjarnadóttir lögfræðingur, en hún skrifaði greiningagerðina fyrir íslensk stjórnvöld sem ný lög um stafrænt ofbeldi byggir á.

Íslenskt viðskiptalíf í 68. sæti

Nöfnurnar Katrín Olga Jóhannesdóttir fyrrum formaður Viðskiptaráðs Íslands og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra voru samstíga í ræðum sínum á Viðskiptaþinginu í síðustu viku þar sem þær gerðu jafnréttismálin að umtalsefni.

„Eigum samt enn langt í land“

Hanna Birna Kristjánsdóttir stjórnarformaður Heimsþings kvenleiðtoga segist afar stolt af þeim árangri sem Ísland hefur náð í jafnréttismálum. Staðan sé þó enn ekki nógu góð og hindranir meðal annars þær að enn hvíla heimilisstörf og barnauppeldi mun þyngra á konum en körlum.

Ungt fólk sækir í störf hjá fyrirtækjum sem hlúa að jafnrétti og sjálfbærni

Bjarney Harðardóttir, einn eigenda 66°Norður segir reynslu fyrirtækisins vera að ungt fólk sækist í störf hjá fyrirtækjum sem vinna að því að vera fyrirmyndir í jafnréttis- og sjálfbærnimálum. Bjarney segist þeirrar skoðunar að fyrirtæki sem ekki huga að þessum málum muni tilheyra fortíðinni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.