Körfubolti

Sögulegur sigur Atlanta sem er komið í úrslit Austurdeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trae Young hefur verið einn besti leikmaður úrslitakeppninnar.
Trae Young hefur verið einn besti leikmaður úrslitakeppninnar. getty/Tim Nwachukwu

Atlanta Hawks er komið í úrslit Austurdeildar NBA eftir sigur á Philadelphia 76ers, 96-103, í oddaleik í nótt. Þetta var fyrsti sigur Atlanta á útivelli í oddaleik í sögu félagsins, í tíundu tilraun.

Þetta er aðeins í annað sinn á síðustu fimmtíu árum sem Atlanta kemst svona langt í úrslitakeppninni. Fyrir sex árum komst liðið í úrslit Austurdeildarinnar en tapaði fyrir Cleveland Cavaliers, 4-0.

Mikill viðsnúningur hefur orðið á gengi Atlanta en þann 1. mars hafði liðið aðeins unnið fjórtán af 34 leikjum sínum og var búið að reka þjálfarann sinn, Lloyd Pierce. Síðan þá hefur Atlanta verið á mikilli siglingu undir stjórn Nates McMillan og er nú komið í úrslit Austurdeildarinnar þar sem liðið mætir Milwaukee Bucks.

Trae Young, sem hefur verið frábær í úrslitakeppninni, hitti illa í nótt en setti niður mikilvæga þriggja stiga körfu þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum og kom Atlanta sex stigum yfir, 87-93. Young endaði með 21 stig og tíu stoðsendingar.

Kevin Huerter var stigahæstur í liði Atlanta með 27 stig en hann hefur aldrei skorað meira í leik á ferlinum. John Collins skoraði fjórtán stig og tók sextán fráköst og Dario Gallinari skoraði sautján stig.

Joel Embiid var atkvæðamestur í liði Philadelphia með 31 stig og ellefu fráköst. Tobias Harris skoraði 24 stig og tók fjórtán fráköst. Ben Simmons gaf þrettán stoðsendingar en tók aðeins fjögur skot í leiknum.

Phoenix Suns tók forystuna gegn Los Angeles Clippers með 120-114 sigri í fyrsta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar. 

Devin Booker átti stórleik; skoraði fjörutíu stig, tók þrettán fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Þetta var fyrsta þrefalda tvennan sem hann nær á ferlinum. DeAndre Ayton skoraði tuttugu stig og tók níu fráköst.

Chris Paul lék ekki með Phoenix og sömu sögu var að segja af Kawhi Leonard hjá Clippers. Paul George var stigahæstur gestanna með 34 stig. Reggie Jackson skoraði 24 stig.

Úrslitin í nótt

  • Philadelphia 96-103 Atlanta
  • Phoenix 120-114 LA Clippers

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×