Körfubolti

Stóra táin á Durant réði úrslitum - Milwaukee áfram eftir oddaleik

Valur Páll Eiríksson skrifar
Durant og Antetokounmpo í baráttunni í leik næturinnar.
Durant og Antetokounmpo í baráttunni í leik næturinnar. Getty Images/ Elsa

Milwaukee Bucks unnu frækinn 115-111 útisigur á Brooklyn Nets í oddaleik liðanna um sæti í úrslitum Austurdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Spennan í leiknum var gríðarleg.

Liðin mættust í New Jersey í gærkvöld í jöfnum leik. Brooklyn-liðið, leitt af Kevin Durant, var með yfirhöndina framan af og leiddi með sex stiga mun í hálfleik, 53-47. Eftir þriðja leikhlutann var staðan orðin 82-81 fyrir Milwaukee og liðin skiptust á forystunni í lokaleikhlutanum.

Alls skiptust þau 20 sinnum á forystunni í leiknum en það var lið Milwaukee sem leiddi 109-107 þegar örfáar sekúndur voru eftir. Það féll í hendur Kevins Durant að reyna við sigurskotið fyrir Brooklyn í lokin sem fór niður við mikil fagnaðarlæti þegar ein sekúnda var á klukkunni.

Durant hafði hins vegar rekið stóru tánna á þriggja stiga línuna og fékk því aðeins tvö stig í stað þriggja. Hann jafnaði leikinn 109-109 og framlengja þurfti.

Þetta var fyrsti framlengdi oddaleikurinn í NBA í 15 ár, og sýnilegt stress var í liðunum. Einungis átta stig voru skoruð í framlengingunni þar sem Bucks höfðu betur með sex stig gegn tveimur stigum Nets, lokastaðan því 115-111 fyrir Milwaukee Bucks sem eru komnir í úrslit Austurdeildarinnar.

Hélt hann hefði klárað dæmið

„Stóri bevítans fóturinn minn [my big ass foot] steig á línuna,“ sagði Durant eftir leik.

„Ég sá hversu nálægt ég var að loka tímabilinu með þessu skoti,“ bætti hann við. Durant átti frábæran leik og skoraði 48 stig fyrir Nets.

„Við vorum heppnir að táin hans var á línunni og þeir kölluðu þetta tvist,“ sagði Khris Middleton, sem skoraði lokakörfu Bucks í framlengingunni. „En eftir að hann hittir úr þessu skoti, gleymdu því, það var enn leikur sem þurfti að spila. Leikurinn var ekki búinn þarna.“

Annar oddaleikur í kvöld

Giannis Antetokounmpo skoraði 40 stig fyrir Milwaukee í gær auk þess að taka 13 fráköst. Middleton, félagi hans, skoraði 23 stig og tók tíu fráköst fyrir liðið. Durant fór fyrir Brooklyn með 48 stig en James Harden var með 22 stig en skoraði aðeins úr fimm af 17 tilraunum sínum í leiknum, tíu stiga hans komu af vítalínunni.

Milwaukee Bucks munu eftir sigurinn leika til úrslita í Austurdeildinni þar sem liðið mætir annað hvort Philadelphia 76ers eða Atlanta Hawks. Þau leika oddaleik í kvöld, á miðnætti, og verður sá leikur sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×