Viðskipti innlent

Fyrr­verandi að­stoðar­maður utan­ríkis­ráð­herra ráðinn fram­kvæmda­stjóri Háa­fells

Atli Ísleifsson skrifar
Gauti Geirsson er 28 ára Ísfirðingur.
Gauti Geirsson er 28 ára Ísfirðingur. Háafell

Gauti Geirsson sjávarútvegsfræðingur hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Háafells ehf., fiskeldisfyrirtækis í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Háafelli. Þar segir að framundan sé mikil uppbygging á vegum Háafells en félagið hefur stundað fiskeldi í Ísafjarðardjúpi frá árinu 2001.

„Gauti er 28 ára Ísfirðingur og er með B.Sc. próf í sjávarútvegsfræðum frá háskólanum í Tromsø og vinnur nú að meistaraverkefni í sömu fræðum sem hann líkur næsta vor. Gauti hefur unnið fyrir Háafell frá árinu 2017 sem verkefnastjóri og þekkir því vel til reksturs og starfsemi Háafells. Gauti er í sambúð með Elenu Dís Víðisdóttur verkfræðinema og eiga þau von á sínu fyrsta barni í sumar,“ segir í tilkynningunni.

Þá starfaði Gauti einnig sem aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar í ráðherratíð hans sem utanríkisráðherra.

„Háafell hefur leyfi fyrir 800 tonna eldi á laxi og regnbogasilungi í seiðaeldisstöð sinni á Nauteyri ásamt 7.000 tonna leyfi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi fyrir eldi á regnbogasilungi. Nú er eldi á regnbogasilungi á vegum félagsins á tveimur stöðum í Ísafjarðardjúpi, í Álftafirði og undir Bæjahlíð innan við Æðey. Auglýst hefur verið 6.800 tonna laxeldisleyfi Háafells í Ísafjarðardjúpi og stefnt er að útsetningu fyrstu laxaseiða í Ísafjarðardjúp snemma næsta vor,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×