Körfubolti

Táningurinn með hæsta framlag Þórsara í undanúrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Styrmir Snær Þrastarson hefur staðið sig frábærlega í sinni fyrstu úrslitakeppni.
Styrmir Snær Þrastarson hefur staðið sig frábærlega í sinni fyrstu úrslitakeppni. Vísir/Bára

Þórsarar eru komnir alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í Domino's deild karla í körfubolta sem er eitthvað sem mjög fáir bjuggust við fyrir tímabili. Þeir hinir sömu sáu heldur ekki fyrir sér uppkomu hins nítján ára gamla Styrmis Snæs Þrastarsonar.

Styrmir Snær Þrastarson hefur ekki aðeins stimplað sig inn í Domino's deildinni í vetur heldur en hann kominn í hóp bestu íslensku leikmanna deildarinnar.

Það hefur verið mikið látið með strákinn og ekki af ástæðulausu en hann hefur enn og aftur sýnt hvað er mikið spunnið í hann með frábærri frammistöðu sinni í úrslitakeppninni þar sem hann hefur hækkað sig bæði í stigum og framlagi frá því í deildarkeppninni.

Styrmir var þannig frábær í sínum fyrsta oddaleik á ferlinum þegar hann skilaði 21 stigi, 7 fráköstum og 4 stoðsendingum í 18 stiga sigri á Stjörnunni, 92-74. Styrmir fiskaði 10 villur á Stjörnumenn og hitti ennfremur úr 10 af 11 vítaskotum.

Þessi frammistaða þýddi að táningurinn í Þórsliðinu endaði með hæsta framlag Þórsara í undanúrslitunum en hann og Adomas Drungilas voru jafnir með samtals 101 framlagsstig í leikjunum fimm eða 20,2 í leik.

Styrmir Snær Þrastarson var með 17,4 stig, 6,6 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í einvíginu. Hann fiskaði langflestar villur allra eða 5,8 í leik og tólf fleiri en næsti liðsfélagi hans.

Það sýnir kannski hversu yfirvegaður þessi ungi leikmaður er að hann nýtti 29 af af 33 vítaskotum sínum í einvíginu sem gerir 88 prósent vítanýtingu á undanúrslitasviðinu.

  • Hæsta framlag Þórsara í undanúrslitaeinvíginu við Stjörnuna:
  • 1. Styrmir Snær Þrastarson 101 framlagsstig (20,2 í leik)
  • 1. Adomas Drungilas 101 (20,2)
  • 3. Larry Thomas 92 (18,4)
  • 4. Callum Reese Lawson 79 (15,8)
  • 5. Halldór Garðar Hermannsson 44 (8,8)
  • 6. Davíð Arnar Ágústsson 40 (8,0)
  • 7. Ragnar Örn Bragason 29 (5,8)
  • 8. Emil Karel Einarsson 24 (4,8)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×