Körfubolti

NBA dagsins: CP3 axlaði ábyrgðina og Brooklyn Nets fóru á kostum

Sindri Sverrisson skrifar
Chris Paul sendir boltann í sigrinum gegn Denver.
Chris Paul sendir boltann í sigrinum gegn Denver. AP/Matt York

Hinn 36 ára gamli Chris Paul átti ríkan þátt í því að Phoenix Suns ynnu sigur í fyrsta leik einvígisins við Denver Nuggets í undanúrslitum vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Paul skoraði 14 stig í lokaleikhlutanum og Phoenix fagnaði 17 stiga sigri, 122-105.

Þó að Sólirnar snúist oftast um hinn magnaða Devin Booker, sem skoraði 21 stig í gær líkt og Paul, þá er framlag CP3 eins og hann er kallaður einnig afar mikilvægt. Paul, sem hefur 11 sinnum verið valinn í stjörnuleik NBA, er reynsluboltinn í hinu unga liði Phoenix sem hefur átt afar góðu gengi að fagna í vetur og sló meistara Los Angeles Lakers út í síðustu umferð.

Eymsli í öxl öngruðu Paul í einvíginu við Lakers þar sem hann skoraði 9,2 stig að meðaltali í leik. Hann fann greinilega fyrir verk í öxlinni í fyrsta leikhluta gegn Phoenix en lét það ekki stoppa sig og átti glimrandi leik.

Auk þess að skora 21 stig átti Chris Paul 11 stoðsendingar gegn Denver og tók sex fráköst. Hann er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögunni til að ná því eftir 36 ára afmæli sitt að skora 20 stig og ná 10 fráköstum í leik í úrslitakeppni. Hinir tveir eru Steve Nash og John Stockton.

Í NBA dagsins má sjá tilþrif Pauls og félaga í Phoenix í sigrinum gegn Denver, og helstu svipmyndir úr afar öruggum sigri Brooklyn Nets á Milwaukee Bucks, 125:86, þar sem Kevin Durant fór hamförum í fyrstu þremur leikhlutunum.

Klippa: NBA dagsins 8. júní

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.