Viðskipti erlent

Efast um að sögulegt skattasamkomulag nái til Amazon

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Enn á eftir að útfæra samkomulagið.
Enn á eftir að útfæra samkomulagið. epa/Friedemann Vogel

Sérfræðingar hafa áhyggjur af því að netsölurisinn Amazon muni komast hjá því að greiða umtalsvert hærri skatta á helstu viðskipasvæðum sínum ef sögulegt samkomulag leiðtoga G7-ríkjanna stendur óbreytt.

Samkomulagið miðar að því að þvinga stórfyrirtæki á borð við Apple, Microsoft, Google og Facebook til að greiða meiri skatt. Það byggir á tveimur stoðum; önnur snýst um að fyrirtækin greiði ákveðna prósentu af hagnaði á mörkuðum þar sem umsvif þeirra eru veruleg þrátt fyrir lágmarks yfirbyggingu en hin snýst um fordæmalausan alþjóðlegan lágmarksskatt.

Samkvæmt Guardian benda vinnugögn þó til þess að fyrrnefnda stoðin nái eingöngu til þeirra stórfyrirtækja þar sem hagnaðarhlutfallið er yfir 10 prósent, það er hagnaður sem hlutfall af veltu.

Þetta segja sérfræðingar geta gert það að verkum að samkomulagið muni ekki ná til Amazon, þar sem hagnaðarhlutfall fyrirtækisins var 6,3 prósent árið 2020, meðal annars vegna þess að fyrirtækið leggur mikla áherslu á endurfjárfestingar og að auka markaðshlutdeild sína.

Guardian hefur eftir Richard Murphy, gestaprófessor við Sheffield University, að hagnaðarhlutfallsviðmiðið væri óheppilegt vegna þess hve viðskiptamódel fyrirtækja væru fjölbreytileg. 

Þá sagði hann að núverandi nálgun á það hvernig hagnaður væri reiknaður út fyrir hvert ríki fyrir sig biði upp á að leikið væri á kerfið. „Þetta gætu reynst falsvonir þangað til að þeir ná að útfæra þetta á réttan hátt,“ sagði hann um samkomulagið.

Paul Monaghan, framkvæmdastjóri Fair Tex Foundation, segir að svo virðist sem Amazon hafi ekki „náðst“ að þessu sinni. „Ef það eru fleiri útfærsluatriði sem fela í sér að þetta nái til Amazon þá er það frábært, en það virðist ekki vera enn sem komið er.“

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagðist hins vegar á laugardaginn telja að samkomulagið ætti að ná til Facebook og Amazon.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.