Umfjöllun og viðtöl: Sel­­foss - Stjarnan 28-30 | Ó­­­trú­­legur enda­­sprettur tryggði Stjörnunni sæti í undan­úr­slitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stjarnan er komin í undanúrslit Olís-deildarinnar.
Stjarnan er komin í undanúrslit Olís-deildarinnar. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan er komin í undanúrslit Olís-deildar karla í handbolta eftir ótrúlegna endasprett á Selfossi. Garðbæingar unnu leikinn 30-28 og fara áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Leikurinn var mjög hraður í byrjun og liðin skoruðu í nánast hverri einustu sókn fyrsta korterið. Eftir 15 mínútna leik var staðan 9-9 og allt í járnum.

Selfyssingar skoruðu þá næstu tvö mörk leiksins og náðu í fyrsta skipti tveggja marka forskoti.

Patrekur var ekki í stuði fyrir það að missa Selfyssingana fram úr sér og tók strax leikhlé. Næstu tvö mörk voru Stjörnumanna og allt orðið jafnt aftur.

Þegar rúmar fimm mínútur voru til hálfleiks náðu Stjörnumenn loksins forystunni þegar Leó Snær Pétursson kom þeim í 13-12 af vítalínunni.

Leó Snær kom gestunum svo í tveggja marka forskot skömmu seinna, en Hergeir Grímsson minnkaði muninn þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Hvorugu liðinu tókst að skora meira í hálfleiknum og staðan því 14-13 Stjörnunni í vil þegar gegnið var til búningsherbergja.

Selfyssingar mættu virkilega sterkir inn í seinni hálfleikinn og skoruðu fimm mörk gegn engu marki Stjörnunnar á fyrstu mínútunum.

Patrekur Jóhannesson hafði séð nóg og tók leikhlé eftir aðeins fimm mínútna leik. Það hægði aðeins á Selfyssingum, en það gekk enn ekkert upp hjá Stjörnunni.

Patti tók því sitt seinasta leikhlé þegar aðeins tólf mínútur voru búnar af seinni hálfleik. Þetta leikhlé kveikti greinilega í gestunum og þeir minnkuðu muninn í eitt mark tæplega þrem mínútum seinna.

Selfyssingar náðu aftur þriggja marka forskoti þegar Einar Sverrisson kom heimamönnum í 24-21 þegar um stundarfjórðungur var eftir, en þá hrukku Stjörnumenn í gang.

Stjarnan tók 8-2 kafla og þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka var staðan orðin29-26, Stjörnunni í vil.

Selfyssingar þurftu því að vinna upp tvö mörk til að komast áfram á lokamínútunum. Ragnar Jóhannsson minnkaði muninn í tvö mörk þegar 43 sekúndur voru eftir, en klókir Stjörnumenn náðu að éta klukkuna niður þangað til að tíminn var búinn við lítinn fögnuð Selfyssinga.

Stjarnan vann því að lokum virkilega mikilvægan tveggja marka sigur. Lokatölur 28-30, en Stjarnan fer áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Af hverju vann Stjarnan?

Þetta var virkilega jafn og spennandi leikur, en það voru Stjörnumenn sem héldu haus þegar á þurfti. Þeir lentu í miklu mótlæti í upphafi seinni hálfleiks en unnu sig til baka og gáfust aldrei upp.

Hverjir stóðu upp úr?

Brynjar Darri Baldursson varði kannski ekki marga bolta í markinu hjá Stjörnunni í kvöld, en hann kom inn á undir lokin og varði mjög mikilvæga bolta.

Björgvin Hólmgeirsson var öflugur í liði gestanna með sjö mörk og sýndi enn og aftur reynslu sína.

Vilius átti fínan leik í marki Selfyssinga og Atli Ævar var gjörsamlega óstöðvandi í fyrri hálfleik, en Stjörnumenn náðu að loka betur á línuspilið í seinni hálfleik.

Hvað gekk illa?

Bæði lið tóku slæma kafla í leiknum. Selfyssingar töpuðu að minnsta kosti þrem boltum í leiknum þegar þeir voru einum færri þar sem þeir kasta í hendurnar á Degi Gautasyni sem skoraði í opið markið. Selfyssingum vantaði herslumuninn til að klára einvígið og fóru oft á tíðum illa með góð færi á lokamínútunum.

Ég elska handbolta

Patrekur Jóhannesson var gríðarlega sáttur í leikslok.Vísir/Elín Björg

„Hvað á maður að segja eftir svona leik? Selfossliðið er hörkulið sem ég þekki mjög vel og þetta var bara ótrúlega flott hjá strákunum,“ sagði rekur Jóhannesson eftir leikinn.

„Við vorum í mjög góðu jafnvægi fyrir leikinn og fórum vel yfir það sem við gerðum vitlaust í fyrri leiknum. Vð vorum líka andlega sterkir þegar við lendum undir.“

„Þetta er abra magnað. Þetta er besti árangur liðsins í deildarkeppni í einhver 15 ár og núna erum við í fyrsta skipti komnir þetta langt.“

Ég auðvitað finn aðeins til með Selfyssingum en þetta var hörkuleikur og ég er hrikalega ánægður.“

Stjarnan lennti fjórum mörkum undir um miðjan seinni hálfleik og þurfti því að vinna upp sex mörk til að komast áfram. Patti þurfti að bregðast við snemma í seinni hálfleik, og þegar aðeins tólf mínútur voru liðnar af honum var hann búinn með leikhléin sín.

„Ég er bara þannig þjálfari að ég sæki alltaf. Menn mega hafa sína skoðun á því, ef ég sé hlutina ekki ganga þá reyni ég alltaf að sækja til sigurs. Ég er mjög grimmur á því að breyta vörnum ef ég er með leikmenn sem hafa trú á mér og eru skipulagðir.“

„Auðvitað var sjö á sex ákveðinn þáttur í þessu. Við fengum ágætis færi og vorum líka klókir. Brynjar Darri kemur svo líka inn í markið og ver mjög mikilvæga bolta. Eins og ég segi var þetta bara jafn leikur á móti hörkuliði.“

Selfyssingar voru mjög óánægðir með lokasókn gestanna þar sem að þeir fengu að hanga nokkuð lengi á boltanum. Stjörnumenn voru klókir og sóttu aukaköst og létu klukkuna vinna með sér.

„Varðandi þetta síðasta þá held ég að það séu fjórar sendingar eftir og Bjöggi fer á vörnina og það er brotið á honum. Er þá ekki bara dæmt aukakast? Af hverju á að vera að rífa kjaft yfir því?“

„En ég skil þá svo sem alveg vel. Maður er svekktur og sár og ég get fundið fullt af punktum sjálfur. Líka úr síðasta leik. Til dæmis þegar Ragnar leggur boltann ekki niður og fær ekki tvær mínútur. Það er hægt að finna endalaust af þessu. Ég skil það alveg. Ég myndi örugglega gera það sjálfur ef við hefðum tapað. Þetta var bara vel gert hjá Bjögga. Reynsla.“

Stjarnan fær ekki auðvelt verkefni í undanúrslitum þar sem að þeir mæta Haukum. Patti segist ekki hafa verið farinn að hugsa út í næstu viðureign en Haukarnir hafa verið óstöðvandi í seinustu leikjum.

„Ég viðurkenni það að ég var ekki byrjaður að hugsa út í það. Ég vildi nú bara að mínir menn gæfu allt í þennan leik og að maður gæti farið inn í klefa og litið í spegilinn eftir að hafa gefið allt í þetta.“

„Jú, jú, það eru Haukar og það vita allir hvað þeir geta en allir leikir leggjast vel í mig. Það er alveg sama á móti hvaða liði ég spila, ég hlakka alltaf til. Ég elska handbolta og ég elska að þjálfa. Eins og ég elskaði að þjálfa á Selfossi þá þykir mér alveg jafn vænt um strákana mína í Garðabænum svo að ég hlakka bara til.“

Hefðum kannski þurft meiri heppni með okkur

Halldór Jóhann var sár og svekktur með tap sinna manna í kvöld.Vísir/Bára

„Ég er bara hrikalega tapsár og svekktur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, eftir leikinn. 

„Við fórum bara með þetta sjálfir á kafla þegar við klikkum mikið á dauðafærum og það í rauninni fór með leikinn.“

„Við vorum komnir fjórum mörkum yfir og fáum alveg ógrynni af færum. Svo eru þeir dýrir þessir töpuðu boltar þegar við erum einum færri og erum að kasta í hendurnar á þeim.“

“Við hefðum alveg getað klárað þetta en ég er nokkuð ósáttur við þessa sókn hjá þeim í lokin þar sem þeir fá að spila í mínútu. Reglurnar eru auðvitað bara svona en mér fannst þetta vera ansi ódýrt sem þeir fá þarna í lokin. En kannski var þetta bara rétt hjá þeim, ég veit það ekki. Ég á eftir að skoða þetta.“

Eins og Halldór talaði um þá voru Selfyssingar komnir með gott forskot um miðjan seinni hálfleikinn en töpuðu því niður. Halldór segir þó að liðið hafi spilað vel mest allan leikinn.

„Við erum að spila á fáum leikmönnum og erum með mjög ungan bekk. Þetta er mikið af strákum sem eru bara að stíga sín allra fyrstu skref af því að við erum í miklum meiðslavandræðum.“

„Þetta var bara svolítið stöngin út hjá okkur í dag. Mér fannst við spila frábærlega í 45 eða 50 mínútur en Stjörnuliðið var bara flott í dag og ég óska þeim til hamingju. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem þeir eru að fara í fjögurra liða úrslit í sögu félagsins. Það er bara frábært fyrir þá en við kannski bara höfðum ekki meiri kraft í dag og hefðum kannski þurft meiri heppni með okkur.“

Selfyssingar fundu Atla Ævar mikið á línunni í fyrri hálfleik en línuspilið var ekki jafn áberandi í þeim seinni. Halldór segir að Stjarnan hafi lokað ágætlega á það sem hafi opnað fyrir skot fyrir utan punktalínu.

„Við fengum fín færi til að skjóta fyrir utan og gerðum það en við vorum að skjóta illa. Svo vorum við að fá dauðafæri líka sem við vorum að klikka á. Við klikkum á þrem dauðafærum í röð og það setur þá inn í leikinn.“

„Þeir eru með reynslumikla menn í sínu liði í Tandra og Bjögga og þeir eru klókir.“

Selfyssingar eru komnir í sumarfrí og Hallddór virtist vera nokkuð feginn. Hann var allavega ekki á því að það yrði æfing strax á mánudaginn til að byrja að undirbúa næsta vetur.

„Nei, alls ekki. Þetta er búið að vera mjög erfiður vetur og við erum með núna sjö eða átta leikmenn sem gætu verið að spila ansi margar mínútur í meiðslum. Við erum líka með menn sem eru að bíða eftir því að komast í speglun á hné og aðrar aðgerðir.“

„Þetta er búið að vera ótrúlegt. Ég er hrikalega stoltur af mínu liði og hvernig menn eru búnir að klára tímabilið. Við erum í fjórða sæti í deildinni og erum með að mínu mati einn besta varnarmanninn í deildinni í Tryggva sem er bara 18 ára.“

Halldór fór svo mikinn í að hrósa Tryggva Þórissyni fyrir sína framistöðu í vetur, enda hefur hann átt stóran þátt í góðum varnarleik Selfyssinga og virðist verða betri með hverjum leiknum.

„Mér finnst hann ekki fá þá athyglisem hann á skilið. Hann er sennilega með flestar varnarmínútur í deildinni í vetur. Hann er í liðinu sem fékk á sig næst fæst mörk í deildinni og spilar þar 60 mínútur í hverjum einasta leik, 18 ára.“

„Menn geta valið einhverja leikmenn sem efnilegast leikmaðurinn og eitthvað svoleiðis, en mér finnst hann búinn að vera algjörlega frábær og það er alveg með ólíkindum hvað hann er tilbúinn að leggja á sig.“

Við fengum bara einhver aukaköst og tíminn rann bara út

Björgvin Hólmgeirsson var eðlilega í góðu skapi að leik loknum.Vísir/Hulda Margrét

„Tilfinningin er bara mjög góð. Það er alltaf gott að komast áfram í úrslitakeppni og nú bara byrjar nýtt einvígi á móti Haukum,“ sagði Björvin Hólmgeirsson, leikamður Stjörnunnar, eftir leik.

Eins og áður hefur komið fram þá voru Selfyssingar ansi heitir eftir lokasókn Stjörnumanna þar sem þeim fannst Stjarnan fá að hanga ansi lengi á boltanum. Björgvin var þó ekkert mikið að velta sér upp úr því.

„Ég man nú eiginlega bara ekkert eftir henni. Við fengum bara einhver aukaköst og tíminn rann bara út. Við erum búnir að lenda ansi oft í því að fá mark á okkur í lokin þannig að það var frábært að enda þetta svona.“

Stjörnumenn lentu í basli í upphafi seinni hálfleiks og voru þrem mörkum undir þegar um korter var eftir. Björgvin segir að það hafi ekki haft áhrif á leikmenn liðsins.

„Þetta snérist bara um að vinna leikinn. Tvö til þrjú mörk eru náttúrulega ekki neitt í þessum leikjum þannig að við hugsuðum bara um það.“

„Svo vorum við að skora mikið af mörkum þannig að við hugsuðum okkur að það myndi kannski bara duga að vinna með tveimur og það kom í ljós að það var nóg,“ sag'i Björgvin að lokum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira