Körfubolti

Önnur orrusta í átökum Garðbæinga og Þorlákshafnarbúa

Sindri Sverrisson skrifar
Stjarnan fagnaði sigri í fyrsta leik einvígisins en hvað gerist í kvöld?
Stjarnan fagnaði sigri í fyrsta leik einvígisins en hvað gerist í kvöld? vísir/bára

Stjarnan og Þór Þorlákshöfn leiða saman hesta sína í Garðabæ í kvöld kl. 20.15, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta.

Stjarnan er 1-0 yfir í einvíginu eftir að hafa fagnað 99-90 sigri í Þorlákshöfn á mánudagskvöld. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaeinvígið gegn annað hvort Keflavík eða KR.

Hér að neðan má sjá upphitunarmyndband með tilþrifum og atvikum úr fyrstu orrustu liðanna og búast má við að enn frekar hitni í kolunum í kvöld.

Klippa: Stjarnan og Þór Þorlákshöfn mætast

Leikurinn í Þorlákshöfn var lengst af jafn og spennandi. Þórsarar voru yfir fyrir lokaleikhlutann, 69-67, en Stjörnumenn komu af krafti inn í þann leikhluta og skoruðu 12 stig í röð og lögðu þannig grunninn að sigrinum. 

Ægir Þór Steinarsson var frábær fyrir Stjörnuna og skoraði þrefalda tvennu með því að gera 26 stig, taka 11 fráköst og gefa 10 stoðsendingar. Svíinn Alexander Lindqvist skoraði 18 stig. Hjá Þór var Larry Thomas stigahæstur með 25 stig en sex leikmenn liðsins skoruðu 10 stig eða meira í leiknum.

Annar leikur Stjörnunnar og Þórs hefst kl. 20.15 í kvöld og er að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þriðji leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á sunnudagskvöld og það verður svo að koma í ljós hvort fleiri leiki þurfi til að útkljá einvígið.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.