Viðskipti innlent

Gylfi Þór fjárfestir í glænýjum bát

Snorri Másson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson ásamt íslenska landsliðinu í knattspyrnu á leið til Rússlands á HM 2018.
Gylfi Þór Sigurðsson ásamt íslenska landsliðinu í knattspyrnu á leið til Rússlands á HM 2018. Vísir/Vilhelm

Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður hefur ásamt fjölskyldu sinni fjárfest í glænýjum bát, Huldu GK 17, sem smíðuð var í Hafnarfirði í bátasmiðjunni Trefjum. Báturinn er allur hinn glæsilegasti, um 29,5 brúttótonn, tæpir tólf metrar á lengd og er breiðasti bátur í öllu krókaaflamarkskerfinu.

Frá þessu er greint á vef Fiskifrétta.

Sigurður Aðalsteinsson útgerðarmaður, faðir Gylfa, segir í viðtali við Fiskifréttir að báturinn lofi strax góðu. Farið verður til veiða alls staðar í kringum landið allt eftir árstíð og áhöfnin getur haldið til um borð í bátnum.

Gylfi er þátttakandi í fjárfestingu útgerðarfélagsins, en þeir feðgar fara fyrir nokkuð umfangsmikilli útgerð ásamt Ólafi Má, sem er bróðir Gylfa.

 Faðir Gylfa kveðst síður eiga von á að Gylfi verði munstraður á Huldu. 

„Hann hefur gaman af því að veiða samt og gerir talsvert af því á flugustöng og á færi líka. Það má vel vera að hann skreppi á sjó í sumarfríinu. Helmingnum af sumarfríinu ver hann samt yfirleitt í þágu lands og þjóðar í landsleiki og ferðalög. Honum gefst því venjulega lítill tíma til veiða,“ segir Sigurður.

Gylfi er tekjuhæsti íslenski knattspyrnumaðurinn og fékk 850 milljónir í árslaun í fyrra samkvæmt Viðskiptablaðinu.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×