Körfubolti

Knicks banna á­horf­andann sem hrækti á Trae Young

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Trae Young í leiknum síðustu nótt.
Trae Young í leiknum síðustu nótt. Elsa/Getty Images

Úrslitakeppnin í NBA-deildinni í körfubolta hefur farið af stað með látum. Áhorfendur eru mættir aftur á hliðarlínuna og hafa þeir heldur betur látið taka til sín. Sumir á jákvæðan hátt en aðrir á neikvæðan hátt.

Vísir fjallaði fyrr í dag um það hvernig poppkorni var hellt á Russell Westbrook er hann yfirgaf leik Washington Wizards og Philadelphia 76ers vegna meiðsla. Wizards töpuðu og eru 2-0 undir í einvíginu en Westbrook var lítið að pæla í því eftir að áhorfandi sturtaði poppkorni yfir hann.

Westbrook brást eðlilega illa við og þurfti öryggisverði til að aftra honum frá því að hjóla í téðan áhorfenda.

Trae Young átti frábæran leik í liði Atlanta Hawks sem mátti þola tap gegn New York Knicks í New York. Young skoraði 30 stig og gaf 7 stoðsendingar en það sem vakti hvað mesta athygli í leiknum var það að einn áhorfendanna í Garðinum, heimavelli Knicks, hrækti á Young á meðan leik stóð.

Leikmaðurinn tók að því virtist ekki mikið eftir því og gerði grín að atvikinu á Twitter-síðu sinni í kjölfarið.

Knicks hefur samt ákveðið að banna einstaklinginn frá heimavelli sínum, að eilífu!

„Rannsókn á málinu leiddi til staðfestingar á því einstaklingur, sem er ekki ársmiðahafi, hrækti á Trae Young. Vegna þess hefur hann verið bannaður frá Garðinum það sem eftir er,“ sagði í yfirlýsingu Knicks. Þá bað félagið Young – sem og allt Atlanta liðið – afsökunar á hegðun áhorfandans.

Úrslitakeppni NBA-deildarinnar heldur áfram í nótt þegar þrír leikir fara fram. Klukkan 23.30 er leikur Miami Heat og Milwaukee Bucks á dagskrá. Bucks leiða 2-0 og erfitt að sjá Miami komast lengra í ár. 

Klukkan 02.00 spila meistarar Los Angeles Lakers á heimavelli gegn Phoenix Suns. Allt er í járnum í rimmu liðanna en staðan er 1-1 sem stendur. Það sama er upp á teningnum í einvígi Portland Trail Blazers og Denver Nuggets. Þau mætast klukkan 02.30.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.