Handbolti

Aron gæti mætt Ála­borg í úr­slitum Meistara­deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson fær tækifæri til að vinna Meistaradeild Evrópu í þriðja sinn.
Aron Pálmarsson fær tækifæri til að vinna Meistaradeild Evrópu í þriðja sinn. getty/Xavi Urgeles

Aron Pálmarsson og félagar hans í spænska meistaraliðinu Barcelona mæta Nantes í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Dregið var í höfuðstöðvum EHF í dag.

Úrslitahelgi Meistaradeildarinnar verður venju samkvæmt leikin í Lanxess höllinni í Köln. Undanúrslitaleikirnir fara fram laugardaginn 12. júní og úrslitaleikurinn og leikurinn um 3. sætið daginn eftir.

Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Paris Saint-Germain og Álaborg. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar og Aron gengur í raðir liðsins í sumar.

Barcelona hefur unnið alla fjórtán leiki sína í Meistaradeildinni í vetur. Börsungar komust í úrslit keppninnar í fyrra en töpuðu þá fyrir Kiel, 28-33.

Barcelona er sigursælasta liðið í sögu Meistaradeildarinnar með níu titla. Sá síðasti vannst 2015 þegar Guðjón Valur Sigurðsson lék með liðinu.

Aron var í sigurliði Kiel í Meistaradeildinni 2010 og 2012. Hann vann auk þess silfur með Kiel 2014, Veszprém 2016 og Barcelona 2020.

Hin liðin í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, Nantes, PSG og Álaborg, hafa aldrei unnið keppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×