Skoðun

Hvernig byggjum við upp sam­fé­lagið með tættum for­eldrum?

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir skrifar

Við fáum í sífellu upplýsingar um hve fólk er almennt stressað og að streitan sé að buga okkur. Streituástandinu fylgja andleg og líkamleg vandamál í samfélaginu sem bæði dregur úr verðmætasköpun og eykur útgjöld í heilbrigðismálum. Fyrir utan það augljósa að það er erfitt að vera stressaður og fólk verður tætt.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf það út árið 2019 að streita sé næsti heilbrigðisfaraldur (health epidemic) okkar tíma. Það var reyndar áður en að Covid 19 kom fram og setti heiminn á hliðina. Núna er okkur að takast að vinna bug á Covid 19 en eftir situr stressið sem hefur bara aukist síðasta árið á meðan við lifðum með heimsfaraldrinum.

Streita hefur slæm áhrif á heilsu okkar og er vísindalega sannað að þegar að líkaminn er í langvarandi streituástandi þá fylgi margvíslegir heilsukvillar, líkamlegir sem andlegir og líkur á kvíða og þunglyndi aukast.

Ég þekki vel stöðu stressaðra foreldra og fjölskyldna. Flestir foreldrar vinna fulla vinnu samhliða því að ala upp börn og eru á sama tíma að skapa sér starfsvettvang og koma sér upp húnsæði. Þegar gera á alla þessi hluti vel verða foreldrar tættir sem síðan bitnar á börnunum. Tættir og stressaðir foreldrar ala upp tætt börn sem verða síðan tættir fullorðnir einstaklingar. Við verðum að finna jafnvægi á milli atvinnu- og fjölskyldulífs.

Ramminn virkar ekki

Ramminn verður að virka fyrir fjölskyldur en til þess þurfa allir að koma að borðinu. Foreldrar, vinnuveitendur, menntakerfið, hið opinbera og samfélagið allt eru þessi rammi. Við þurfum forvarnir í þessum efnum eins og svo mörgu öðru.

Það sem fjölskyldur þurfa er öryggi sem snýr að því að börnin fái pláss í dagvistun, möguleikar á því á að stækka við sig húsnæði, foreldrar þurfa tíma til að sinna börnum sínum og rækta tengsl í rólegu umhverfi og stöðugleika.

Þegar einstaklingar eru undir miklu álagi þá verður erfiðara að sinna skyldunum, þeir fá síður nýjar hugmyndir, verðmætasköpun og afköst í vinnu og á heimilinu verða ekki eins mikil. Það er því lýðheilsu- og efnahagsmál að halda streitu niðri. Börnin sem alast í þessu umhverfi eru líklegri til að þróa með sér félagsleg og andleg vandamál og þá erum við komin í vítahring.

Við þurfum breytingar í samfélaginu og stjórnvöld verða að hafa hag fjölskyldna að leiðarljósi í stefnumótun sinni og ekki reyna að flækja lífið að óþörfu. Börnin eru framtíðin og sköpum þeim rólegra umhverfi.

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SuðvesturkjördæmiAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.