Handbolti

Jón Heiðar skotinn niður fyrir norðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Heiðar Sigurðsson fékk einn á kjammann en bjargaði um leið marki í mikilvægum sigri KA á ÍBV.
Jón Heiðar Sigurðsson fékk einn á kjammann en bjargaði um leið marki í mikilvægum sigri KA á ÍBV. Vísir/Elín Björg

KA-menn ætla sér í úrslitakeppnina í Olís deildinni sama hvað og leikmenn liðsins eru tilbúnir að fórna sér eins og Seinni bylgjan tók fyrir.

KA-menn fóru mjög langt með að tryggja sig inn í úrslitakeppnina eftir baráttusigur á Eyjamönnum um helgina. Leikmenn Akureyrarliðsins fórnuðu sér í verkefnið og sumir fengu hreinlega á kjammann fyrir vikið.

Seinni bylgjan fann gott dæmi um fórnfýsi leikmanna KA-liðsins þegar Jón Heiðar Sigurðsson steig fyrir framan Hákon Daða Styrmisson sem ætlaði að skora frá miðju þegar mark KA-liðsins var tómt.

„Við vorum sammála að það hafi verið svona úrslitakeppnisfílingur og það var hasar og annað. Það gerðist ýmislegt eins og til að mynda þetta hér,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, áður en hann sýndi atvikið.

Klippa: Seinni bylgjan: Jón Heiðar skotinn niður

„Sjáið hérna. Bæng. Þetta fór ekki yfir Jón Heiðar, norður yfir hann. Aumingja karlinn,“ sagði Henry Birgir. Hákon Daði skaut Jón Heiðar hreinlega niður í bókstaflegri merkingu.

„Jón Heiðar fórnar sér en var hann of nálægt,“ spurði Jóhann Gunnar Einarsson en Henry Birgir og Ásgeir Örn Hallgrímsson voru ekki á því.

„Þetta er hræðilega vont, beint í andlitið en hann bjargar marki því það var enginn í markinu,“ sagði Jóhann.

„Hann er alveg vankaður eftir þetta,“ sagði Ásgeir Örn.

Jón Heiðar átti mjög góðan leik í tveggja marka sigri á ÍBV og var með fjögur mörk og fjórar stoðsendingar. Sá sem skráir tölfræðina hjá KA-mönnum var þó ekki tilbúinn að gefa honum varið skot þarna þótt að Jón hafi fórnað andlitinu í það að komast fyrir skotið.

Hér fyrir ofan má sjá þetta atvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×