Körfubolti

NBA dagsins: Rekinn af velli eftir þrjár mínútur í fyrsta leik sínum á tímabilinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Udonis Haslem, fyrirliði Miami Heat, var rekinn af velli eftir þrjár mínútur í fyrsta, og kannski síðasta, leik sínum á tímabilinu.
Udonis Haslem, fyrirliði Miami Heat, var rekinn af velli eftir þrjár mínútur í fyrsta, og kannski síðasta, leik sínum á tímabilinu. getty/Michael Reaves

Miami Heat ber nafn með rentu þessa dagana og virðist vera að hitna á hárréttum tíma fyrir úrslitakeppnina. Miami sigraði topplið Austurdeildar NBA, Philadelphia 76ers, 106-94, í nótt.

Miami komst óvænt í úrslit á síðasta tímabili en brösuglega gekk hjá liðinu lengi framan af þessu tímabili. Miami hefur hins vegar spilað vel að undanförnu, unnið fjóra leiki í röð og átta af síðustu níu leikjum sínum.

Liðið er í 5. sæti Austurdeildarinnar og getur enn náð 4. sætinu sem gefur heimavallarrétt í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Jimmy Butler skoraði 21 stig fyrir Miami og þeir Tyler Herro og Bam Adebayo sitt hvor átján stigin. Sá síðastnefndi tók einnig tólf fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Fyrirliði Miami, hinn fertugi Udonis Haslem, lék sinn fyrsta leik á tímabilinu í nótt. Gamanið var þó stutt því hann var rekinn af velli eftir að hafa fengið tvær tæknivillur á þeim þremur mínútum sem hann spilaði.

Tobias Harris skoraði 21 stig fyrir Philadelphia. Ben Simmons og Joel Embiid náðu sér hins vegar engan veginn á strik og skoruðu aðeins samtals fjórtán stig.

Philadelphia hefði tryggt sér toppsætið í Austurdeildinni með sigri. Það eru þó litlar líkur á að liðið láti það af hendi. Philadelphia mætir Orlando Magic, einu slakasta liði deildarinnar, í síðustu tveimur leikjum sínum og með sigri í öðrum þeirra verður Philadelphia á toppi Austurdeildarinnar í fyrsta sinn síðan 2001.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum Miami og Philadelphia, Charlotte Hornets og Los Angeles Clippers og Phoenix Suns og Portland Trail Blazers auk flottustu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA 14. maí

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×