Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Stjarnan 96-102 | Stólarnir sluppu inn í úrslitakeppnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson var besti leikmaður vallarins.
Ægir Þór Steinarsson var besti leikmaður vallarins. vísir/hulda margrét

Stjarnan gerði góða ferð á Sauðárkrók og vann Tindastól, 96-102, eftir framlengingu í lokaumferð Domino's deildar karla í kvöld.

Stjörnumenn höfðu ekki að neinu að keppa í leiknum á meðan Stólarnir reyndu að halda sér inni í úrslitakeppninni. Með sigri myndu þeir halda 7. sætinu en gátu farið alveg niður í 10. sætið.

Stjarnan endaði í 3. sætinu eins og var ljóst fyrir leikinn á meðan Tindastóll fór niður í 8. sætið. Stjörnumenn mæta Grindvíkingum í 1. umferð úrslitakeppninnar á meðan Stólarnir mæta deildarmeisturum Keflvíkinga.

Stólarnir eru eflaust grautfúlir að hafa ekki unnið Stjörnumenn, sem voru án Hlyns Bæringssonar í kvöld, og þar af leiðandi sloppið við að mæta ógnarsterkum Keflvíkingum í úrslitakeppninni.

Ægir Þór Steinarsson átti frábæran leik fyrir Stjörnuna í kvöld; skoraði 28 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hann jafnaði leikinn í 87-87 þegar fjórar sekúndur voru eftir og tryggði Stjörnumönnum framlengingu. Ægir setti einnig niður stóra þriggja stiga körfu í framlengingunni. 

Nick Tomsick skoraði 23 stig fyrir Tindastól og Jaka Brodnik 22. Flenard Whitfield og Antanas Udras voru báðir með sextán stig og þrettán fráköst.

Bæði lið voru frekar stirð og stíf í sókninni í 1. leikhluta, sérstaklega Stólarnir sem skoruðu aðeins þrettán stig í honum. En þeir bættu sóknarráð hitt heldur betur í 2. leikhluta þar sem þeir skoruðu 31 stig.

Stólarnir komust snemma í skotrétt í 2. leikhluta og skoruðu alls tólf stig af vítalínunni í fyrri hálfleik. Brodnik gerði átta þeirra. Tomsick var einnig öflugur í fyrri hálfleik og skoraði þá fjórtán stig.

Stjarnan var sjö stigum yfir eftir 1. leikhluta, 13-20, og leiddi nær allan fyrri hálfleikinn. Munurinn var þó aldrei mikill. Í hálfleik munaði einu stigi á liðunum, 44-45.

Tindastóll komst yfir, 62-61, þegar þrjár mínútur voru eftir af 3. leikhluta en Stjarnan svaraði með sjö stigum í röð. Eftir 3. leikhlutann voru gestirnir úr Garðabænum sex stigum yfir, 62-68.

Framan af 4. leikhluta benti allt til þess að Stjarnan myndi fara með stigin tvö heim í Garðabæinn. Vörn Tindastóls var hins vegar þétt og smám saman sigu heimamenn fram úr og komust í góða stöðu.

Þegar rúm mínúta var eftir kom Brodnik Stólunum fimm stigum yfir, 86-81, með þristi. Stjörnumenn skoruðu næstu fjögur stig og sendu svo Pétur Rúnar Birgisson á vítalínuna. Hann skoraði aðeins úr öðru vítinu og munurinn því bara tvö stig, 87-85. 

Stjarnan fór í sókn sem endaði því að Ægir setti niður stökkskot og jafnaði, 87-87. Lokasókn Tindastóls fór út um þúfur og því þurfti að framlengja. Þegar þarna var komið við sögu var ljóst að Stólarnir væru öruggir inn í úrslitakeppnina. Eina spurningin var hvort þeir myndu enda í 7. eða 8. sæti deildarinnar.

Í framlengingunni voru gestirnir fetinu framar eins og þeir voru stærstan hluta leiksins. Þeir komust sjö stigum yfir, 90-97, en heimamenn svöruðu með tveimur þristum. Udras gat svo komið Stólunum yfir en brenndi af tveimur vítaskotum.

Í næstu sókn setti Saralilja svo niður þriggja stiga skot eftir mikinn darraðardans og Ægir kláraði svo leikinn með tveimur vítaskotum. Lokatölur 96-102, Stjörnunni í vil.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn voru heilt yfir sterkari þótt þeir hafi verið komnir í erfiða stöðu undir lokin. Vörnin var sterk á köflum og svo skoraði Stjarnan sextán þriggja stiga körfur gegn aðeins níu hjá Tindastóli. Margir lögðu í púkkið hjá Garðbæingum og varamenn þeirra skoruðu samtals 26 stig. Á meðan skoruðu varamenn Skagfirðinga aðeins tíu stig.

Hverjir stóðu upp úr?

Ægir bar af á vellinum og var sérstaklega góður í seinni hálfleik og framlengingunni. Auk þess að vera miðpunkturinn í sókn Stjörnunnar spilaði hann einnig fyrirtaks vörn eins og alltaf. Gunnar Ólafsson var góður í fyrri hálfleik og skoraði þá ellefu af fjórtán stigum sínum. Brodeur var linur í fráköstunum en skoraði góðar körfur og Saralilja var betri en enginn þegar mest á reyndi.

Udras átti einn sinn besta leik í vetur; skilaði sextán stigum, þrettán fráköstum og varði fjögur skot en klikkaði á fimm af átta vítaskotum sínum. Tomsick og Brodnik skoruðu báðir yfir tuttugu stig en skotnýting þeirra beggja var slök.

Hvað gekk illa?

Pétur fann sig ekki í kvöld, ekki frekar en í mörgum leikjum í vetur. Stólarnir þurfa á miklu meira og betra framlagi frá honum til að geta strítt Keflvíkingum, þó ekki væri nema smá. En miðað við ganginn á Stólunum upp á síðkastið er ólíklegt að það gerist.

Tindastóll var aðeins með 23 prósent þriggja stiga nýtingu í kvöld og leikmenn liðsins fóru illa að ráði sínu á vítalínunni á ögurstundu.

Hvað gerist næst?

Stjarnan mætir Grindavík í 1. umferð úrslitakeppninnar á meðan Tindastóls bíður ærið verkefni; deildarmeistarar Keflavíkur sem unnu síðustu tólf leiki sína í deildarkeppninni. Á meðan tapaði Tindastóll síðustu þremur leikjum sínum og koma haltrandi inn í einvígi gegn langbesta liði landsins.

Baldur: Hefðum átt að vinna

Baldur Þór Ragnarsson var ekki kátur í leikslok.vísir/hulda margrét

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var ósáttur að hafa ekki náð að vinna Stjörnuna í lokaumferð Domino‘s deildar karla í kvöld.

„Það er hrikalega leiðinlegt að tapa svona og sárt,“ sagði Baldur sem var stuttur í svörum eftir leikinn.

Hans menn voru undir bróðurpart leiksins en komust í góða stöðu undir lokin. Það dugði þó ekki til. Stjarnan kreisti fram framlengingu og kláraði leikinn svo þar.

„Mér fannst við að gera vel í þessum leik og hefðum átt að vinna,“ sagði Baldur.

Tapið í kvöld þýðir að Tindastóll endar í 8. sæti og mætir deildarmeisturum Keflavíkur í 1. umferð úrslitakeppninnar.

„Það er áskorun. Þeir eru í 1. sæti en við í því áttunda. Við ætlum að leggja allt í það,“ sagði Baldur að lokum.

Ægir: Veit á gott að klára svona jafnan leik rétt fyrir úrslitakeppnina

Ægir Þór Steinarsson getur vart beðið eftir því að úrslitakeppnin hefjist.vísir/hulda margrét

Ægir Þór Steinarsson var besti maður vallarins þegar Stjarnan lagði Tindastól að velli í kvöld. Hann var að vonum ánægður með sigurinn.

„Þetta er ótrúlegt. Við vorum með leikinn í höndunum en misstum hann svo frá okkur. Svo tókst okkur einhvern veginn að koma okkur aftur inn í hann. Við sýndum mikinn karakter undir lokin og ég held það viti á gott að klára svona jafnan leik rétt fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Ægir eftir leik.

Stjarnan var fetinu framar nær allan leikinn þótt munurinn væri aldrei mikill. En undir lokin var staða Stjörnumanna allt í einu orðin slæm og þeir voru fimm stigum undir þegar rúm mínúta var eftir. Þeim tókst þó að tryggja sér framlengingu og tryggði sér svo sigurinn þar.

„Þeir eru með sóknarmenn sem geta skorað upp úr þurru. Menn verða að vera vakandi allan tímann gegn þessum gaurum og það má ekki missa einbeitinguna. En við rifum okkur í gang,“ sagði Ægir.

Hann fagnar þessum sigri, svona rétt fyrir úrslitakeppnina og eftir erfitt gengi að undanförnu.

„Heldur betur. Við erum fullir sjálfstraust og svo tilbúnir að hefja úrslitakeppnina,“ sagði Ægir en Stjörnumenn mæta Grindvíkingum í 1. umferð úrslitakeppninnar.

„Ég er svo spenntur að taka á móti þeim. Við mættum þeim í átta liða úrslitum fyrir tveimur árum og þurftum heldur betur að hafa fyrir hlutunum. Og það verður ekkert nýtt af nálinni núna, sérstaklega í ljósi þess hversu vel þeir hafa spilað og hversu þéttir þeir eru. Við þurfum að sýna okkar A-leik gegn þeim.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.