Körfubolti

Dallas vann Brooklyn Nets og Luka Doncic ætlar að hætta að væla svona mikið í dómurum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic fer framhjá Kyrie Irving í sigri Dallas Mavericks á Brooklyn Nets í nótt.
Luka Doncic fer framhjá Kyrie Irving í sigri Dallas Mavericks á Brooklyn Nets í nótt. AP/Tony Gutierrez

Luka Doncic lofar því að vera prúðari við dómarana nú þegar hann er aðeins einni tæknivillu frá því að leikbann. Hann brosti eftir leikinn við Brooklyn Nets í nótt.

Luka Doncic og félagar unnu Brooklyn Nets þrátt fyrir 45 stig frá Kyrie Irving. Doncic var bara tveimur stoðsendingum frá þrennunni í 113-109 sigri en Slóveninn var með 24 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Tim Hardaway Jr. skoraði síðan 23 stig.

Dallas Mavericks þekkir það orðið vel að vinna Brooklyn Nets og liðið vann komst eitt upp í fimmta sætið í Vesturdeildinni með þessum sigri sem er mikilvægt í baráttunni við að sleppa við umspilið.

Brooklyn Nets tapaði fjórða leiknum í röð í fyrsta sinn á tímabilinu en liðið er áfram án James Harden. Kevin Durant skoraði 20 stig. Nets gæti dottið niður í þriðja sætið í Austurdeildinni þar sem Milwaukee Bucks er á miklu skriði.

Luka Doncic lofaði betri hegðun í öllum viðtölum sínum eftir leik nú þegar hann má ekki fá eina tæknivillu í viðbót. Næsta þýðir leikbann og Dallas má alls ekki við því að missa hann í harðri baráttu sinni í að komast beint inn í úrslitakeppnina.

„Ég átta mig á þessu og þetta er eitthvað sem ég á ekki að gera. Það er oft erfitt að ráða við tilfinningarnar í leikjunum en ég verð bara að hætta þessu. Ég þarf að vinna í þessu. Það er erfitt en ég þarf bara að verða miklu betri,“ sagði Luka Doncic eftir leik.

Paul George var stigahæstur hjá Los Angeles Clippers í öruggum 118-94 sigri á nágrönnunum í Los Angeles Lakers en Lakers liðið hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum.

Kawhi Leonard var með 15 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar og Ivica Zubac skoraði 14 stig og tók 8 fráköst. Clippers vann annan leikinn í röð og tryggði sér endanlega sæti í úrslitakeppninni.

Lakers lék án LeBron James í nótt og missti Anthony Davis snemma af velli vegna bakmeiðsla. Kyle Kuzma var stigahæstur neð 25 stig en Davis skoraði 4 stig á 9 mínútum áður en hann yfirgaf völlinn. Davis var að glíma við kálfameiðsli en nú er bakið að hrjá hann.

Russell Westbrook og félagar í Washington Wizards halda áfram að safna sigrum en að þessu sinni unnu þeir 131-129 sigur á Toronto Raptors í framlengdum leik.

Bradley Beal skoraði 14 af 28 stigum sínum í fjórða leikhluta og framlengingu og Westbrook bauð upp á 34. þrennu sína á tímabilinu. Westbrook endaði með 13 stig, 17 fráköst og 17 stoðsendingar.

Westbrook er nú kominn með 180 þrennur á NBA-ferlinum eftir sex þrennur í síðustu sjö leikjum. Hann er nú aðeins einni þrennu frá því að jafna met Oscars Robertson.

Stephen Curry skoraði 34 stig og gaf 7 stoðsendingar þegar Golden State Warriors vann 118-97 sigur á Oklahoma City Thunder. Warriors er komið í áttunda sætið í Vesturdeildinni. Þar hjálpaði til að Memphis Grizzlies tapaði í nótt á móti Detroit Pistons. Þetta var fimmti þrjátíu stiga leikur Curry í röð.

Mychal Mulder skoraði 25 stig og sjö þrista og Andrew Wiggins var með 18 stig. Ty Jerome var með 23 stig fyrir Thunder og skoraði 22 stig en þetta var fimmta tap liðsins og það nítjánda í síðustu tuttugu leikjum.

Úrslitin í NBA deildinni í nótt:

  • Dallas Mavericks - Brooklyn Nets 113-109
  • Los Angeles Clippers - Los Angeles Lakers 118-94
  • Toronto Raptors - Washington Wizards 129-131 (framl.)
  • Golden State Warriors - Oklahoma City Thunder 118-97
  • Detroit Pistons - Memphis Grizzlies 111-97
  • Indiana Pacers - Atlanta Hawks 133-126
  • Charlotte Hornets - Chicago Bulls 99-120

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.